Hvort sem að þú ert að byrja í þínu fyrsta starfi eða ert að skipta um starfsvettvang þá getur oft tekið aðeins á taugarnar að mæta fyrsta daginn á nýjan vinnustað. Spurningar varðandi starfið sjálft og vinnustaðinn eru margar og ímyndunaraflið eitt sér um að svara þeim. Að stíga sín fyrstu skref í nýju starfi má þó alltaf líta á sem gríðarlega mikið og spennandi tækifæri, og er mikilvægt að vera vel undirbúinn og jákvæður fyrir framhaldinu. Við tókum saman nokkra punkta sem er gott að hafa í huga þegar kemur að því að hefja störf á nýjum vinnustað.

 

Kynntu þér vinnustaðinn vel
Kynntu þér fyrirtækjamenninguna, skoðaðu stefnu, skipurit og gildi fyrirtækisins og allar þær þjónustur/vörur sem það hefur upp á að bjóða. Í dag er oft auðvelt að nálgast þessar upplýsingar á veraldarvefnum og því um að gera að skoða ofangreint vel. Með því að skoða fyrir hvað fyrirtækið stendur þá mætir þú öruggari fyrsta daginn og jafnvel tilbúin/n með spurningar sem gætu hafa vaknað. Við búum á litlu landi og því er einnig um að gera að nýta sér tengslanetið til þess að spyrjast fyrir um vinnustaðinn ef þú þekkir til einhvers sem þekkir til fyrirtækisins.

Spurðu spurninga  – Fáðu að ganga hring um fyrirtækið
Einhver sagði að engin spurning sé heimskuleg spurning. Og það er alveg hárétt, sérstaklega þegar að maður er að hefja störf á nýjum vinnustað. Það eru ótal spurningar sem manni langar að spyrja að og algjör óþarfi að vera hrædd/ur við það að spyrja samstarfsfélagana. Það voru allir nýjir einhvern tímann, og á góðum vinnustöðum eru flestir tilbúnir til þess að aðstoða. Enda er það hagur nýju samstarfsfélaganna að þú komist hratt og örugglega inn í starfið. Mjög gott er að fá að labba um fyrirtækið og fá kynningu á fyrstu dögunum svo að þú áttir þig á skipulaginu og deildarskiptingunni.

Sýndu frumkvæði
Þrátt fyrir að vera ný/r í starfinu þá er mjög gott að henda sér í djúpu laugina til þess að læra fljótt inn á starfið. Sýndu frumkvæði með því að hafa eitthvað til málanna að leggja varðandi verkefnin sem tilheyra þér og þinni deild. Komdu með nýjar hugmyndir ef þú sérð tækifæri og bjóddu fram aðstoð þína. Oft eru nýjir starfsmenn sem koma inn með fersk og hlutlaus augu góðir í að straumlínulaga ferla sem eru gamlir. Ekki vera hrædd/ur við að segja hug þinn, það sýnir metnað. Það er samt sem áður mikilvægt að setja sér raunhæf markmið um það hversu mörgum boltum maður getur haldið á lofti. Það getur verið freistandi að taka að sér öll þau verkefni sem bjóðast en passaðu upp á að ofhlaða þig ekki. Þú vilt kynnast starfinu fyrstu vikurnar án mikillar streitu og geta staðið við þá skilafresti sem þér eru settir.

Mættu stundvíslega og vel til fara
Það er alltaf mikilvægt að vera stundvís en ennþá mikilvægara í nýju starfi. Gott er að vera smekklega klæddur, fer þó eftir störfum. Sum fyrirtæki eru með kröfur um ákveðinn klæðaburð og önnur með sérstakan einkennisklæðnað.

 Fáðu strax á hreint hver þín starfslýsing er og til hvers er ætlast af þér
Á fyrstu dögum nýja starfsins þá er gott að setjast niður með þínum næsta yfirmanni og fara yfir þína starfslýsingu og hvaða kröfur eru gerðar til þín. Þannig er strax komið í veg fyrir allan misskilning og byrjunarörðugleika. Ef þér finnst þú ekki fá nægilega mikla þjálfun eða þau tól og tæki til þess að sinna starfi þínu ræddu það þá við þinn næsta yfirmann og fáðu hann til þess að skoða það með þér hvað er í boði.

Kynntu þig fyrir samstarfsfélögunum
Samstarfsfélagar þínir eru fólkið sem þú munt eyða miklum tíma með og oftar en ekki verða samstarfsfélagarnir eins konar aukafjölskylda þín og bestu vinir. Nýttu tímann í að kynnast þeim í kaffi- og matarpásum og ef það er einhver skemmtun skipulögð utan vinnutíma reyndu þá að mæta. Það er alltaf gott fyrir starfsandann að hrista sig saman utan veggja vinnustaðarins.

Passaðu upp á hvíldina
Fyrstu vikur og mánuðir í nýju starfi geta tekið á andlega og líkamlega. Það er eðilegt að koma heim eftir langan vinnudag og langa bara að hvíla sig fyrir næsta dag. Ef það er það sem þú upplifir hlustaðu þá á líkamann og hvíldu þig. Það tekur mikið á að setja sig inn í nýtt starf enda mikið nýtt að læra og heilinn oft á yfirsnúning. Til þess að ná að meðtaka allt sem maður þarf að læra þá kemur hvíldin sterk inn.

Fáðu reglulega fundi með þínum yfirmanni
Það getur verið gott að setja niður reglulega fundi með þínum næsta yfirmanni til þess að taka stöðuna á því hvernig þér gengur að komast inn í starfið. Þannig getur þú skrifað niður hjá þér ef það er eitthvað sem þú vilt spyrjast fyrir um eða fá ráðleggingar um. Það er einnig góður vettvangur fyrir þinn yfirmann til þess að kynnast þér betur sem er mikilvægt þegar kemur að því að útdeila verkefnum og fleira.

Það hefur verið sagt að eitt af því erfiðasta sem þú gerir í lífinu sé að skipta um starf, sérstaklega ef þú hefur verið hjá sama fyrirtækinu í mörg ár. Það gæti mögulega eitthvað verið til í því. Oft kemur upp söknuður til gömlu samstarfsfélaganna og það er vissulega gott að vera hjá fyrirtæki sem þú þekkir út og inn. Gott er að líta á nýtt starf sem nýtt og spennandi tækifæri til þess að læra nýja hluti og takast á við ný og krefjandi verkefni. Nýtt starf er oft skref út fyrir þægindahringinn og það er mikill þroski falinn í því ferli. Maður eyðir stórum hluta af sínu lífi í vinnunni og því eins gott að gera sitt besta til þess að hafa gaman af henni og njóta þess að þroskast og dafna á nýjum starfsvettvangi. Ef þið eruð að hefja störf á nýjum vettvangi þá segi ég bara gangi ykkur vel!

 

 

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.