Herferðin Kvennastarf fór af stað út frá þeirri mýtu sem við flest könnumst við, að starfsgreinar flokkist í kvennastörf og karlastörf. Kynferði á ekki að hafa áhrif á námsval eða starfsvettvang, allt starf er kvennastarf og eiga konur að geta starfað við það sem þeim sýnist – sama gildir um karlmenn. Þetta er frábært framtak og náðum við tali af honum Ólafi Sveini Jóhannessyni deildarstjóra markaðs- og kynningardeildar Tækniskólans, skóla atvinnulífsins, og fengum að heyra meira.

Hvert er markmið herferðarinnar?
Markmiðið er fyrst og fremst að gefa konum í karllægum iðngreinum vettvang til þess að deila reynslusögum og læra hvor af annarri. Þessi vettvangur kom einna helst í ljós á Facebook síðu herferðarinnar, þar sem konur voru duglegar að senda inn myndir og segja reynslusögur sínar, hvort sem um var að ræða reynslu úr skóla eða atvinnulífi. Myllumerkið #kvennastarf varð vinsælt á Instagram þar sem margar konur deildu myndum af sér við hin ýmsu störf og hvöttu fleiri stelpur til þess að kynna sér nám í viðkomandi greinum.

Hvaða áhrif hefur herferðin haft?
Áhrifin af herferðinni verða að koma í ljós á næstu árum. Konur sem velja að læra vélstjórn, húsasmíði eða skipstjórn eru ekki aðeins fyrirmyndir yngri stelpna sem langar að gera slíkt hið sama, heldur kvenna á öllum sviðum samfélagsins. Að mörgu leiti var herferðin komin langt út fyrir iðn- og tæknigreinar, ekkert ósvipað og #meetoo byltingin sem byrjaði með konum í kvikmyndageiranum en spannar nú allar starfsgreinar, en það kom vel í ljós – á Kvennréttindadaginn 8. Mars – þegar Íslandsbanki birti heilsíðu auglýsingar í dagblöðum undir fyrirsögninni bankastjóri er #kvennastarf.

Hefur aðsókn kvenna í slíkum iðn- og tæknigreinum aukist?
Þegar kemur að aðsókn í þær greinar sem voru tilteknar í herferðinni var ekki „marktækur“ munur á milli umsókna í vor þegar litið er á hlutfall kvenna sem sækja um í þessum karllægu greinum á milli skólaára. Þess ber þó að geta að þó nokkur aukning var í ákveðnum greinum s.s. skipstjórn og rafiðngreinum.
Margar ungar konur sem hófu nám í Tækniskólanum á vormánuðum tengja við herferðina – þrátt fyrir að vera ekki endilega í karllægum geira – þær tengja við þessa upplifun, þá upplifun að þurfa að sanna sig meira eða réttlæta stöðu sína.

Herferðin Kvennastarf er samstarf sem allir iðn- og verkmenntaskólar á landinu – auk Samtaka Iðnaðarins vinna í sameiningu. Með herferðinni vinna þau að því sameiginlega markmiði að fjölga nemendum sem velja iðn- og tæknigreinar að loknum grunnskóla úr 13% í 20% fyrir árið 2020.

www.kvennastarf.is
Facebook/kvennastarf
Við minnum svo á #kvennastarf

Díana Bergsdóttir
Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.

Author: Díana Bergsdóttir

Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.