Á vefsíðunni prentsmidur.is má finna hinar ýmsu skipulagsvörur sem eiga það sameiginlegt að geta einfaldað skipulagið heima fyrir. Við fengum að vita meira um hugmyndina og hönnuðinn. 

Lilja Rut Benediktsdóttir er menntaður prentsmiður en hún útskrifaðist árið 2015 og hefur frá árinu 2008 tekið að sér ýmiskonar verkefni en aðallega verið að einblína á einstaklinga – boðskort og jólakort. “Ég hef alltaf verið mjög skipulögð, ekki af því að ég sé það að eðlisfari – ég segi oft að ég sé skipulögð af illri nauðsyn. En ég er mjög gleymin svo það hefur reynst mér mjög vel að hafa skipulagið á ísskápnum, til þess að sjá það oft yfir daginn og þannig virkja minnið. Ég á líka mann og tvö börn, og með því að hafa skipulag fjölskyldunnar fyrir allra augum verður lífið aðeins auðveldara. Hugmyndin að skipulaginu varð að veruleika þegar ég lenti í nokkurra vikna veikindaleyfi í byrjun árs 2016, ég á mjög erfitt með að gera ekki neitt og var því allan tímann í tölvunni uppi í rúmi að útfæra allar hugmyndir sem ég hafði fengið árin á undan, en ekki haft tíma til að framkvæma.”
Það var svo um haustið 2016 sem hún byrjaði að auglýsasegulinn og var þá bara með eina tegund. Segullinn fékk strax gífurlega góðar móttökur og útfrá því fór Lilja að hanna ýmiskonar skipulag, m.a. sérhannað skipulag með tilliti til óska/krafna hverrar fjölskyldu.
“Þegar vinkona mín stakk upp á því að við færum að vinna saman í janúar 2017 stökk ég á tækifærið. Hún hafði nokkru áður keypt lénið prentsmidur.is til eigin nota, en okkur fannst vera lítil þekking á þessu starfsheiti og ákváðum því að nota þetta nafn á fyrirtækið, Prentsmiður. Okkar helstu verkefni í byrjun voru fyrir fyrirtæki, m.a. tímarit, bækur, matseðlar o.fl. en meðfram þeim verkefnum unnum við að vefverslun sem var síðan opnuð í maí 2017. Frá því að vefverslunin opnaði hef ég haldið áfram að þróa fleiri tegundir af skipulagi og er í dag komin með gott úrval af vörum, bæði segla, dagatöl og skipulag í ramma.”
Síðasta haust fór samstarfskona Lilju aftur í nám en hún hefur að mestu verið ein með fyrirtækið síðan þá. Nú er hún því að einblína meira á vörurnar og skipulag, en minna á stærri verkefni og er í dag með fáa en góða fasta viðskiptavini sem hún vinnur fyrir reglulega og hefur þá meira frelsi og tíma til þess að sinna vefversluninni og þróa fleiri vörur.
Þegar kemur að góðum ráðum varðandi skipulag þá segir Lilja það mikilvægt að hafa skipulagið fyrir allra augum. “Mörgum finnst gott að hafa skipulag í símanum og geta deilt því þannig með makanum, en á tímum þar sem margir mættu minnka símanotkun er mun sniðugra að hafa þetta á ísskápnum eða upp á vegg. Við erum líka með tvær tegundir af seglum fyrir börn, bæði umbunarkerfi og svo vikuplan, báðar tegundirnar henta fyrir öll börn en ekki síst þau sem þurfa meira aðhald, hvort sem það er sjónrænt skipulag fyrir daginn eða bara áminning um hvenær á að taka með íþróttaföt, sundföt og svo framvegis.
Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.