Hlutverk mannauðsstjóra er ábyrgðarmikið og mikilvægt starf. Mannauðsstjórar bera ábyrgð á mikilvægasta auð fyrirtækisins, mannauðnum. Flest fyrirtæki eru með starfandi mannauðsstjóra og stærri fyrirtæki eru einnig með starfrækta mannauðsdeild með sérhæfðum mannauðssérfræðingum sem heyra undir mannauðsstjóra. Okkur fannst virkilega áhugavert að fá að skyggnast betur inn í störf og hlutverk mannauðsstjóra og höfðum samband við Rögnu Margréti Norðdahl sem hefur verið mannauðsstjóri Símans og dótturfélaga í fimm ár. Hjá Símanum og dótturfélögunum Sensa, Mílu og Radíómiðun starfa í dag  um það bil 700 starfsmenn. Hlutverk Rögnu sem mannauðsstjóri eins stærsta fjarskiptafyrirtækis landsins er margþætt og ætlar hún að segja okkur betur frá því.

22089084_10210016244514682_7160199243579852465_n

Hvenær byrjuðu mannauðsmál að heilla þig og hvernig vissir þú að það væri rétti starfsvettvangurinn fyrir þig?
Það má segja að það hafi tekið mig smá tíma að finna mína réttu hillu. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi prófaði ég mig áfram í háskólanámi. Ég prófaði nokkrar mismunandi deildir þar sem valið snérist um að fara í nám sem átti að vera praktískt og með góða atvinnumöguleika. Í tilraunum við að ná þeim markmiðum prófaði ég til að mynda viðskiptafræði og lögfræði þar sem mér gekk býsna vel. Áhugann vantaði hins vegar og ég átti erfitt með að sjá mig fyrir mér í þessum starfsgreinum.  Að lokum fór því svo að ég ákvað að fylgja hjartanu og ákvað að læra það sem hugurinn sótti í. Leiðin lá í sálfræði í Háskóla Íslands og þá varð ekki aftur snúið. Námið var krefjandi en ákaflega gefandi og skemmtilegt, eldmóðurinn vaknaði og stefnan var strax tekin á framhaldsnám. Fyrir valinu varð framhaldsnám í sálfræði með áherslu á vinnu- og skipulagssálfræði, en spurningar á borð við hvað gerir vinnustað að góðum vinnustað og hvernig vinnuumhverfi og stjórnun laðar fram það besta í starfsfólkinu var það sem vakti áhuga minn. Að námi loknu tók ég við starfi sem mannauðssérfræðingur hjá Skiptum hf sem er í dag Síminn. Þar voru mín helstu verkefni ráðningar, starfsþróunarmál, vinnustaðamælingar og úrbótaverkefni tengd þeim. Starfið stóðst allar mínar væntingar og reyndist vera jafn gefandi og ég hafði búist við. Áskoranirnar sem ég fékk að takast á við voru spennandi og ég fann fljótt að þetta var starfsvettvangur sem hentaði mér afskapalega vel. Í dag hef ég  starfað sem mannauðsstjóri hjá Símanum í rúm 5 ár og hef jafn gaman af starfinu í dag eins og ég hafði þegar ég steig mín fyrstu spor á sviði mannauðsmála.

Hver eru helstu hlutverk og verkefni mannauðsstjóra í daglegum störfum?
Sem mannauðsstjóri ber ég ábyrgð á mannauðsstefnu Símans og dótturfélaga og að unnið sé í takt við hana sem og stefnu félagsins. Við veitum alla alhliða mannauðsþjónustu og það er mín ábyrgð að tryggja að hún sé veitt af fagmennsku, áreiðanleika og nauðsynlegri þekkingu. Við leggjum okkar af mörkum í árangri fyrirtækisins með því velja besta fólkið til starfa, veita því alla þá þjálfun sem það þarf til að sinna störfum sínum sem best og aðstoða það við að vaxa í störfum sínum.  Við aðstoðum stjórnendur við það að  laða fram það besta í starfsfólkinu sínu með góðum stjórnunarháttum og með skýrri og gagnlegri endurgjöf. Við aðstoðum þá  og styðjum í því að takast á við þær áskoranir sem kunna að koma upp, tengt stýringu verkefna eða starfsmönnum. Við leggjum okkur fram við að skapa gott vinnuumhverfi og árangursdrifna fyrirtækjamenningu þar sem starfsmönnum líður vel og þeir geti vaxið í störfum sínum og þannig stuðlað að árangursríkum rekstri.

Hvað er það sem einkennir góða starfsmenn?
Góður starfsmaður er starfsmaður sem býr yfir þeirri hæfni og þekkingu sem starfið krefst en hefur umfram allt til að bera jákvætt viðhorf. Í síbreytilegu og hröðu vinnuumhverfi skiptir sköpum að búa yfir jákvæðu hugarfari, að vera tilbúinn til að þróast með umhverfinu og hafa löngun til að tileinka sér nýja hluti og nýja þekkingu. Góð samskiptahæfni, hæfni til að vinna sjálfstætt en geta jafnframt gefið af sér í öflugri teymisvinnu og að hafa þor til að sýna frumkvæði eru einnig dýrmætir eiginleikar sem nýtast vel í vinnuumhverfi nútímans.

Hvað getur þú ráðlagt ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref í atvinnulífinu og er jafnvel ekki alveg öruggt með það á hvaða starfsvettvangi það vill starfa?
Ég held að það sé farsælast að fylgja hjartanu þegar kemur að því að velja sér starfsvettvang. Að hafa áhuga og gaman af því sem maður starfar við gerir allt svo miklu auðveldara og skemmtilegra. Og þegar manni líður vel og er drifinn áfram af áhuga og ánægju þá eru mun meiri líkur á að maður nái markmiðum sínum og árangri í starfi.

Hvernig er best að undirbúa sig undir atvinnuviðtöl og sigrast á kvíðanum sem fylgir þeim oft?
Regla númer eitt er að vera snyrtilegur til fara og vera stundvís. Til að koma í veg fyrir kvíða og stress er gott að vera búinn að kynna sér fyrirtækið vel og kröfur starfsins. Í viðtalinu þurfa umsækjendur að koma helstu styrkleikum sínum á framfæri og sýna fram á hvernig þeir kunna að nýtast í viðkomandi starfi. Umsækjendur ættu því að reyna að hafa á hreinu hvað það er sem þeir telja sig hafa fram að færa við viðkomandi starf. Flest fyrirtæki eru jafnframt að leita að áhugasömum einstaklingum með gott viðmót svo það skiptir mjög miklu máli að koma vel fyrir og sýna áhuga á starfinu og fyrirtækinu.

Hversu mikilvægt er að vera með góða ferilskrá og hvað ber að forðast við gerð þeirra?
Vönduð ferilskrá er afar mikilvæg, en í flestum tilfellum eru fyrstu kynni fyrirtækja af umsækjendum einmitt ferilskráin. Snyrtileg, skilmerkileg og vel uppsett ferilskrá gefur vísbendingu um að umsækjandinn sé vandvirkur og leggi metnað í það sem hann gerir. Ferilskrá þarf að gefa gott yfirlit yfir menntun og reynslu. Best er að hún sé aðlöguð að því starfi sem sótt er um með því að draga fram þá reynslu og menntun sem nýtist í því starfi sem sótt er um hverju sinni. Best er að ferilskrár séu hnitmiðaðar, ekki of langar og miklu máli skiptir að málfar sér vandað. Í dag er algengt að senda líka inn svokölluð kynningarbréf með umsóknum. Þeim er þá ætlað að gefa ögn ítarlegri upplýsingar. Í slíkum kynningarbréfum getur verið gagnlegt að láta koma fram ástæður umsóknar og leggja áherslu á af hverju viðkomandi telur sig hæfan í starfið eða af hverju hann telur sig passa inn í viðkomandi fyrirtæki. Um kynningarbréf gildir það sama og ferilskrár, þ.e.a.s að þau séu hnitmiðuð og ekki of löng. Bæði ferilskrár og kynningarbréf ættu að geta gefið nokkuð góða mynd af umsækjendum í sem fæstum orðum.

Ragna Margrét er góð fyrirmynd sem sýnir okkur það að með því að fylgja hjartanu og gera það sem maður hefur ástríðu fyrir þá nær maður þeim árangri sem maður vill. Við þökkum Rögnu kærlega fyrir spjallið.

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.