Við höfðum samband við þær stöllur Birtu og Guðnýju sem skipa teymið á bakvið framleiðslufyrirtækið Andvari. Þær hafa sett saman ýmis verkefni á laggirnar og er margt í bígerð hjá þeim. “Andvari er í rauninni bara regnhlíf fyrir okkar verkefni sem varð til allt í einu þegar við höfðum samband við stelpurnar í Hagaskóla sem unnu Skrekk með atriðið Elsku Stelpur árið 2015 og gerðum myndband við atriðið með þeim sem var í raun okkar fyrsta verkefni undir nafninu Andvari.”

Á BAKVIÐ ANDVARA
Annar helmingur teymisins, hún Birta Rán Björgvinsdóttir er 25 ára ljósmyndari og sér um upptöku en Guðný Rós Þórhallsdóttir er 24 ára leikstjóri og framleiðandi. “Við Guðný kynntumst í rauninni í gegn um ljósmyndun, og vorum þá vinkonur á Flickr, áður en við nokkurntímann hittumst. Það er í rauninni ekki fyrr en fimm árum seinna sem við hittumst í fyrsta skipti, fyrsta daginn okkar beggja í Kvikmyndaskólanum.
Þetta er eins og væmin ástarsaga að segja frá en Guðnýju hafði dreymt einhverjum árum áður frá fyrsta hittingi okkar.” segir Birta en Guðnýju hafði þegar dreymt fyrir þessum hittingi.  
 “Nokkrum árum áður en við hittumst postaði ég á vegginn hjá Birtu að mig hefði dreymt að við hefðum hist og hún væri í tígrisdýrabúning að fela sig hjá Hörpunni. Fyndna var að akkúrat þremur árum seinna, upp á dag, frá því að ég póstaði á vegginn hjá henni er fyrsti skóladagurinn. Svo Birta auðvitað tók sig til og mætti í tígrisdýrahönskum til heiðurs draumsins. Það var krúttlega vandræðalegur hittingur, allavega fyrir mig, en ég er líka vandræðalegi helmingur Andvara.” segir Guðný og hlær. 

ÞRÓUN ANDVARA

“Þetta var allt pínu steikt hvernig þetta kom til, ég var eitthvað að spá að gera einhver myndbönd á YouTube til þess að búa til efni til þess að æfa mig að klippa, sem áttu upprunalega að vera í formi video-ritgerða (video essay).” Birta vildi endilega fá Guðnýju í lið með sér til þess að útvega eins konar vettvang og nafn sem þær gætu nýtt sér þegar þær færu út í stærri verkefni.
“Við vorum báðar í Kvikmyndaskólanum á þessum tíma og ég reyndi að vera dugleg að gera myndbönd en svo fór að vera meira og meira að gera í öðrum verkefnum og video ritgerðirnar fóru í smá pásu. En í staðinn hafa önnur og stærri verkefni tekið við.”
Fyrsta stuttmyndin þeirra, C-vítamín kom síðan út árið 2016 en þá var Guðnú á þriðju önninni sinni í Kvikmyndaskólanum.Guðný skrifaði og leikstýrði en Birta skaut og klippti. Sú mynd vann aðalverðlaunin á Shortfish sem er stuttmyndakeppni innan Stockfish Film Festival og hefur síðan verið á flakki um heiminn en þær fylgdu henni meðal annars til Leeds á “Leeds Internatinal Film Festival”. Síðan þá hafa þær gert tvær stuttmyndir sem eru ennþá í eftirvinnslu en líta bráðum dagsins ljós.

Þær hafa verið að taka að sér ýmiskonar verkefni en hafa þó verið að leggja mestan fókus á að gera eitthvað skapandi og fallegt, svo sem stuttmyndir, tónlistarmyndbönd og auglýsingar. Við höfum prufað flestalla hluta þegar kemur að gerð myndbanda, svo sem framleiðslu, tökur og það sem þeim tengist og eftirvinnslu og það er auðvitað bara mis-stórt og flókið eftir verkefnum hvort það henti að hafa allt “innanhúss” eða fá fleiri inn í verkefnin.” Þær stefna á að gefa út ein 4 tónlistarmyndbönd fyrir miðjan mars svo það má með sanni segja að nýtt ár fari vel af stað!
Verkskiptingin er misjöfn en Guðný er meira leikstjórnar- og framleiðslumiðuð og Birta sér um tökur eftirvinnslu, þó auðvitað sé náið samstarf klippara og leikstjóra í klippisvítunni mikilvægt.

KONUM AÐ FJÖLGA INNAN BRANSANS
Aðspurðar að því hvort þær telji sig hafa mætt misrétti vegna kyns tekur Birta fyrst til máls. 
“Ég persónulega tel mig ekki hafa lent í neinu slíku innan þessa bransa, blessunarlega. Kannski nokkrir veggir sem maður rekst á sem nýliði þegar maður er að byrja að fóta sig en ekkert sem ég hef mætt “af því að ég er stelpa”. Ég styð þó kynsystur mínar sem hafa mætt óréttlæti þar sem ég hef alveg mætt því annarsstaðar en innan þessa bransa. Ég fékk tildæmis oftar að heyra hvað ég væri gangslaus og vissi lítið vegna þess að ég væri kona þegar ég vann í þjónustuveri Nova frá kúnnum sem hringdu inn og héldu því fram að konur vissu ekkert um tækni, heldur en nokkurntímann á eða í kring um sett.”Guðný segir að tímarnir séu að breytast, konum sé ekki bara að fjölga innan bransans heldur komi þær líka gífurlega sterkar til leiks. “
Það eru einstaka komment sem maður fær á sig sem kona (þá sérstaklega um eitthvað tæknimiðað) en það er bara að hrista það af sér og halda ótrauð áfram. Ég upplifði það meira þegar ég var yngri, en ég ætlaði mér að gera mynd í fullri lengd þegar ég var 15 ára. Var búin að skrifa handrit og fékk styrk frá Menningasjóði Austurlands. Það sem stoppaði mig hins vegar var þegar ég heyrði fólk tala um mig og það hafði ekki trú á því að ég gæti þetta því ég væri bara lítil vitlaus stelpa. Ég skilaði styrknum því ég fór að trúa því sem fólk sagði og myndin varð ekki til. Ég skammaðist mín lengi vel fyrir allt þetta, en hef lært að meta ferlið með árunum. Ég á þetta handrit ennþá ofan í skúffu, þessi mynd verður einhverntímann til, hún hefur alltaf setið í mér. Það sem er ábótavant eru kvikmyndir um konur, með konum í sterkum aðalhlutverkum, og það er það sem ég hef mestan áhuga á að gera.” 

Í lokin, hvaða ráð hafið þið til annarra stelpna og kvenna sem eru með sams konar drauma og vilja ná lengra í bransanum?
Aldrei hlusta á neinn sem segir að þú getir ekki gert það sem þig dreymir um. Látið ekkert stoppa ykkur.

 

Hér má sjá brot úr þeim verkefnum sem þær stöllur tóku sér fyrir hendur á árinu 2017 en það verður spennandi að fylgjast með þeim í nánustu framtíð.

www.andvarinn.com
Facebook/andvariproductions
Instagram/andvariproductions
Instagram/birtarnb
Instagram/gudnyrosros

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.