D-vítamín ættu allir Íslendingar að taka inn sem fæðuviðbót.

Húðin framleiðir D-vítamín þegar útfjólubláir geislar sólarinnar skína á okkur. Við sem búum á Íslandi getum ekki treyst á sólina til að fá ráðlagðan skammt af D-vítamíni þar sem sólin skín í aðeins örfáa mánuði á ári. Þar að auki virðist sem við séum orðin meðvitaðari um skaðsemi sólarinnar og margir því farnir að forðast sólina eða nota sólarvörn í auknum mæli.

D-vítamín er í fáum fæðutegundum en er mest í lýsi, feitum fiski eins og síld, laxi og silungi, og í eggjarauðu. Auk þess er búið að D-vítamínbæta ýmis matvæli t.d smjörlíki og ýmsar tegundir af mjólk og jurtaolíum.

Fjölbreytt mataræði dugir hins vegar ekki til að fullnægja þörf líkamans fyrir D-vítamín og því mikilvægt að taka inn Lýsi eða annan D-vítamíngjafa, þá sérstaklega á þessum árstíma þegar birtan er lítil.

Hlutverk D-vítamíns og skortseinkenni
D-vítamín gegnir stóru og víðtæku hlutverki í líkamanum okkar. Það er fyrst og fremst nauðsynlegt fyrir nýtingu kalks í líkamanum og gegnir mikilvægu hlutverki í að viðhalda góðri beinheilsu þar sem það örvar frásog kalks í meltingarvegi. Með öðrum orðum vinna kalk og D-vítamín saman og til að kalkið sem við fáum úr fæðunni nýtist líkamanum verður D-vítamín að vera til staðar. Skortur eða lágt D-vítamíngildi í blóði hefur því slæm áhrif á beinin og getur valdið beinkröm hjá börnum og beinþynningu, beinmeyru og vöðvarýrnun hjá fullorðnu fólki.

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvað D-vítamín er okkur nauðsynlegt og ekki aðeins beinin okkar sem þurfa á D-vítamíni að halda. Til að mynda eru vísbendingar um að skortur á D-vítamíni geti tengst sýkingum, sjálfsofnæmissjúkdómum, ákveðnum tegundum krabbameins og aukinni áhættu hjarta- og æðasjúkdómum, en þörf er á frekari rannsóknum á því sviði. Einnig er D-vítamín talið vera mikilvægt fyrir geðheilsu þar sem nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að samband sé á milli D-vítamínskorts og þunglyndis.

Hvað segja ráðleggingar
Ráðlagður dagskammtur hérlendis fyrir D-vítamín er 15 míkrógrömm (μg) fyrir 10 ára og eldri enn hækkar upp í 20 μg eftir sjötugsaldurinn. Fyrir börn yngri en 10 ára er ráðlagður dagskammtur 10 μg á dag. Það er mikilvægt að hafa í huga að D-vítamín er fituleysanlegt vítamín og geta því mjög háir skammtar yfir langt tímabil safnast fyrir í líkamanum og haft skaðleg áhrif. Þar af leiðandi er ekki mælt með meira en 100 μg til daglegrar neyslu fyrir fullorðna og ekki meira en 50 μg fyrir börn. Efri mörkin eru þó undir eitrunarmörkum en hins vegar ætti engin að fara yfir efri mörk án samráðs við lækni.

Hugum að inntöku D vítamíns! Tökum inn lýsi eða lýsisperlur og borðum meira af fisk.

Aníta Sif Elídóttir
Aníta Sif Elídóttir er 26 ára og búsett í Reykjavík. Hún útskrifaðist með BS.c gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands 2013 og M.Sc gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands 2015. Ásamt því að skrifa fyrir framinn.is starfar hún sem næringarfræðingur á Landspítala, Heilsuborg og á Rannsóknarstofu RHLÖ.

Author: Aníta Sif Elídóttir

Aníta Sif Elídóttir er 26 ára og búsett í Reykjavík. Hún útskrifaðist með BS.c gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands 2013 og M.Sc gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands 2015. Ásamt því að skrifa fyrir framinn.is starfar hún sem næringarfræðingur á Landspítala, Heilsuborg og á Rannsóknarstofu RHLÖ.