Viðurkenningarhátíð FKA verður haldin á morgun þann 31 janúar, þar sem konur úr atvinnulífinu eru heiðraðar, veittar eru þrjár viðurkenningar til kvenna sem hafa verið konum í atvinnulífinu hvatning og fyrirmynd.

Hátíðin er nú haldin í nítjánda sinn og er hún stærsti viðburður félagsins ár hvert, stjórn félagsins ætlar að tileinka daginn #metoo byltingunni og hvetur allar konur í íslensku atvinnulífi til að klæðast svörtu á morgun. Með því vilja þær sýna samstöðu og krefjast þess að breytingar verði í kjölfar #metoo byltingarinnar.

FKA viðurkenningar eru veittar í þremur flokkum:

  • FKA viðurkenning fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða þeim sem hafa verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning eða fyrirmynd.
  • FKA þakkarviðurkenning er veitt konu fyrir eftirtektarvert ævistarf sem stjórnanda í atvinnulífinu.
  • FKA hvatningarviðurkenning er veitt konu í atvinnulífinu fyrir athyglisvert frumkvæði.

FKA er öflugt tengslanet athafnakvenna úr öllum greinum atvinnulífsins sem vinnur með aðilum á vinnumarkaði, fyrirtækjum, félagasamtökum og hinu opinbera að því að efla og benda á þátt kvenna í stjórnum eða stjórnunarstöðum í atvinnulífinu. Félagið er þannig leiðandi hreyfiafl sem knýr fram breytingar á lögum og venjum til að gæta jafnvægis og efla fjölbreytileika. Það styður kvenleiðtoga í að sækja fram og sameina þær til aukins sýnileika og þátttöku.

Félagið var stofnað árið 1999, upphaflega var það félag fyrir konur í atvinnurekstri og stóð þá FKA fyrir Félag kvenna í atvinnurekstri en árið 2009 var því breytt í Félag kvenna í atvinnulífinu sem nú telur um 1100 félagskonur.

FKA hefur t.d. staðið að þessum gríðarlega flottum verkefnum:

Stjórnarverkefnið – Stjórnarverkefnið fólst í því að koma fleiri konum í stjórnir fyrirtækja landsins. Verkefnið hófst árið 2009 og árið 2010 samþykkti Alþingi lög um kynjakvóta sem segja að í stjórnum opinberra hlutafélaga og hlutafélaga sem hafa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skuli vera 40 prósent hlutfall af öðru kyninu. Lögin tóku gildi í september 2013.

Fjölmiðlaverkefnið – Fjölmiðlaverkefnið er með það að markmiði að auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum, þar sem hlutföllin eru nú 70-80 prósent karlar á móti 20-30 prósentum kvenna í fjölmiðlum. Verkefnið fór af stað árið 2013 og mun standa til 2020.

Jafnvægisvogin – Meginmarkmiðin með Jafnréttisvoginni er að samræma og safna saman tölulegum upplýsingum um hlut kvenna og karla í stjórnum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja. Verkefnið stendur einnig fyrir viðburðum og fræðslu um mikilvægi fjölbreytileika í stjórnum og stjórnendateymum og að veita fyrirtækjum viðurkenningu árlega, sem náð hafa markmiðum Jafnvægisvogarinnar.

Innan FKA starfa tvær deildir: Atvinnurekendadeild fyrir þær félagskonur sem eru í atvinnurekstri og LeiðtogaAuður sem er deild fyrir konur sem hafa yfirgripsmikla stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu, bæði einkageira og hinum opinbera, hafa gegnt ábyrgðarstöðu og vilja taka þátt í eflingu íslensks atvinnulífs.

Einnig starfa sex nefndir innan félagsins; Alþjóðanefnd, Fræðslunefnd, Viðskiptanefnd, Nýsköpunarnefnd, Golfnefnd og FKA Framtíð, en á haust dögum var FKA Framtíð stofnuð sem við fjölluðum um hér.

Félagskonum FKA býðst gríðarlega öflug dagskrá allt árið sem saman stendur af fundum, fræðslufyrirlestrum og fyrirtækja heimsóknum svo fátt eitt sé nefnt. Ef þú vilt þúsundfalda tengslanet þitt, efla þig sem stjórnanda og leiðtoga þá getur þú sótt um aðild hér.

Arnbjörg Baldvinsdóttir
Arnbjörg Baldvinsdóttir er 28 ára. Hún býr í Kópavogi ásamt kærasta sínum og dóttur. Hún er menntaður margmiðlunarhönnuður frá Óðinsvé í Danmörku með áherslu á markaðsfræði. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún sem Viðskiptastjóri hjá 66°Norður.

Author: Arnbjörg Baldvinsdóttir

Arnbjörg Baldvinsdóttir er 28 ára. Hún býr í Kópavogi ásamt kærasta sínum og dóttur. Hún er menntaður margmiðlunarhönnuður frá Óðinsvé í Danmörku með áherslu á markaðsfræði. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún sem Viðskiptastjóri hjá 66°Norður.