Samfélagsmiðillinn LinkedIn hefur notið mikilla vinsælda meðal einstaklinga og fyrirtækja úr öllum starfsgreinum atvinnulífsins. Megin hlutverk LinkedIn er að skrá þína ferilskrá og reynslu úr atvinnulífinu á þínum persónulega prófíl svo að þú getir deilt þinni reynslu með þínu tengslaneti og öðrum notendum. Margir atvinnurekendur nýta sér þennan vettvang til þess að sjá nánar hvað þú hefur upp á að bjóða, þar sem að vel uppsettir prófílar geta sagt meira til um þína hæfni og reynslu en hefðbundin ferilskrá. Á LinkedIn eru til að mynda oft umsagnir og meðmæli frá fyrrum samstarfsmönnum eða þeim sem þekkja til hvers þú ert megnug/ur. Einn af þeim sem þekkir vel til LinkedIn er Sigurður Svansson, en hann er einn af stofnendum og eigendum Sahara. Fyrirtækið Sahara er stafræn auglýsingastofa sem sérhæfir sig meðal annars í samfélagsmiðlum. Sigurður hefur nýtt sér LinkedIn nánast frá upphafi og hefur kynnt sér vel þeirra stefnur og strauma síðustu ár. Við fengum hann Sigga Svans, eins og hann er kallaður í smá spjall við okkur.

Hver er megin tilgangur samfélagsmiðilsins LinkedIn í dag og hvernig er hægt að nýta sér hann að fullu?
Ég hef alltaf horft á LinkedIn sem hálfgerða dagbók fyrir allt sem ég geri sem snýr að starfsferli mínum. Í stað þess að setja saman ferilskrá á nokkurra ára fresti og eiga í hættu á að gleyma einhverju sem ætti heima þar þá hef ég passað upp á það að uppfæra LinkedIn aðganginn minn reglulega til að vera með allt skrásett og tilbúið þegar ég þarf á því að halda. LinkedIn er einnig frábær miðill til þess að tengjast fólki með öðrum tilgangi en á til dæmis Facebook. Þó einstaklingar sem nýta sér miðilinn séu oft ekki eins virkir eins og á öðrum samfélagsmiðlum þá er LinkedIn einskonar Facebook fyrir fólk á vinnumarkaðnum eða þá sem eru að feta sín fyrstu skref á honum. Þar birtist efni sem er eingöngu tengt atvinnulífinu á einn eða annan hátt.

Telur þú að notkun LinkedIn eigi eftir að aukast hér á landi á næstu misserum?
Eftir síðustu uppfærslu á LinkedIn sem var löngu orðin tímabær þá fannst mér virknin aukast, en fram að því fannst mér miðillinn hafa dalað nokkuð þrátt fyrir að áhugi og forvitni fyrir samfélagsmiðlinum væri töluverður. Sjálfur hef ég verið að nýta mér miðilinn í auknum mæli undanfarið til að tengjast fólki hérlendis og erlendis, auk þess hef ég verið að nýta “learning” hlutann hjá LinkedIn sem hefur verið að koma sterkur inn. Þar inni má finna fjöldann allan af námskeiðum og kennsluefni sem tengist því sem ég starfa við í dag auk annarra spennandi námskeiða.Ég hef orðið meira var við að fyrirtæki og ráðningarstofur séu farin að nýta sér miðilinn í auknum mæli til að finna mögulega kandídata fyrir sín fyrirtæki, sem sýnir að þörfin fyrir vel uppfærðum og vönduðum prófíl er alltaf að aukast. LinkedIn gefur manni tækifæri til þess að segja betur og ítarlegra frá starfsferli sínum en maður almennt gerir þegar maður setur saman ferilskrá og kynningarbréf. Þess vegna getur verið sterkur leikur að setja LinkedIn slóðina sína á ferilskrána til þess að gefa þeim sem fara yfir umsóknina hjá viðkomandi möguleika á að kynnast starfsmanninum enn betur.

Er eitthvað sérstakt sem þú getur bent okkur á að hafa í huga við uppsetningu á LinkedIn síðu?
Númer eitt tvö og þrjú er að klára uppsetninguna á prófílnum. Þá er ég að tala um vandaða og faglega mynd (t.d ekki djammynd), síðustu störf og ábyrgð, menntun og hæfni, svo dæmi séu tekin. Allt of algengt er að einstaklingar stofni sér aðgang og klári hann ekki til fulls.
Eitt af því sem ég nýtti mér um tíma var að setja LinkedIn vefslóðina inn í netfangs undirskriftina hjá mér. Þegar þú stofnar aðgang gefur LinkedIn þér tilbúna slóð sem er með allskonar aukastöfum, en þú getur lagað hana til og gert að þinni eigin sem kemur betur út ef þú þarft að deila henni eða koma fyrir, til dæmis á nafnspjaldi.

Er LinkedIn vettvangur sem hentar öllum?
Eins og ég nefndi hér að ofan þá er LinkedIn einskonar Facebook fyrir fólk í atvinnulífinu, eða einstaklinga sem eru að fara að sækja um störf. Þannig að því sögðu þá hentar miðillinn alls ekki öllum. En virkilega gott fyrir alla að fylgjast með því sem er að gerast í atvinnulífinu og er þessi miðill góður í því skyni.

Eru einhverjir áhrifavaldar úr atvinnulífinu sem er áhugavert að fylgjast með á LinkedIn sem veita manni innblástur?
Mikið af þekktum einstaklingum úr atvinnulífinu eru á LinkedIn og eru duglegir að deila efni í gegnum sínar síður. Þar inni eru t.d forstjórar, sérfræðingar- og stjórnendur stórra fyrirtækja og það kemur oft inn efni frá þeim sem er áhugavert. En það fer allt eftir áhugasviði hvers og eins hverjum maður vill fylgja.

LinkedIn býður upp á ótal möguleika og er skemmtilegur og fræðandi miðill fyrir fólk í atvinnulífinu. Það er einfalt að setja upp LinkedIn aðgang en mikilvægt er að gefa sér tíma til þess að ljúka við uppsetninguna og hafa prófílinn faglegan. Siggi Svans hefur sett inn nokkrar færslur um notkun LinkedIn á sínum prófíl sem er gaman og gott að renna yfir, bæði fyrir þá sem eru nú þegar notendur LinkedIn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref á þeim miðli.

Þið finnið Sigurð Svansson á LinkedIn hér

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

One Reply to “LinkedIn”

Comments are closed.