Smáforritið Alfreð er eitt sinnar tegundar hér á landi, en með því er hægt að fylgjast með nýjum auglýstum störfum á einfaldan hátt. Forritið býður upp á virkilega notendavænt viðmót þar sem þú getur meðal annars stofnað þinn eigin prófíl þar sem þú getur hlaðið inn ferilskrá, kynningarbréfi og fleira. Það gerir til að mynda hausaveiðar mögulegar, en forritið býður upp á þann möguleika. Einnig getur þú stillt vaktina þína eftir starfsheitum, þekkingarsviði, menntun- og eða staðsetningu. Þegar atvinnuleit stendur yfir þá er mikilvægt að fylgjast vel með auglýstum störfum svo að áhugaverð störf fari ekki framhjá manni. Nú eða ef þú vilt fylgjast með atvinnulífinu og hvaða tækifæri eru að opnast. Alfreð einfaldar manni lífið til muna og minnir mann á það ef drauma tækifærið þitt var að opnast. Við vildum endilega vita meira um smáforritið og settum okkur í samband við stofnendur Alfreðs og fengum þá í smá spjall.

alfred-icon

Hver er sagan á bakvið smáforritið Alfreð?
Alfreð var stofnað í febrúar árið 2013 af þeim Vernharði Sigurðssyni og Helga Pjetri. Þeir félagar stofnuðu einnig app fyrirtækið Stokk Software sem hefur smíðað öpp eins og til dæmis Domino’s appið, Strætó, Aur, Eve Online, Leggja og mörg fleiri. Hugmyndin kom upp árið 2012 þegar þeir voru að ráða sína fyrstu starfsmenn fyrir Stokk og komust að því að eini fýsilegi valkosturinn til að auglýsa eftir þeim var í prentmiðli. Þeir sáu þvi tækifæri á markaðnum sem hafði verið nánast óbreyttur hér á landi í tugi ára.

Hvernig hefur smáforritið þróast síðan að það var fyrst stofnað?
Alfreð byrjaði einungis sem afskaplega einfalt app sem birti blaðaauglýsingar og laus störf sem voru auglýst hjá ráðningarstofum. Störfin voru merkt með starfsmerkingum sem gerði fólki kleyft að vakta störf við sitt hæfi og fá tilkynningar þegar störf komu inn. Árið 2016 var Alfreð endursmíðaður frá grunni og einstaklingum boðinn sá möguleiki að skrá svokallaðan Alfreð prófíl og sækja um störf með honum. Auglýsendur (fyrirtækin) fengu í leiðinni ráðningarkerfi til að vinna úr og möguleikann á því að eiga bein samskipti við umsækjendur í gegnum Alfreð. Auglýsingafjöldi hefur vaxið hratt og örugglega. Árið 2014 voru að meðaltali 70 atvinnuauglýsingar birtar í hverjum mánuði í Alfreð í samanburði við að meðaltali 590 atvinnuauglýsingar á mánuði árið 2017.

Eru fyrirtæki farin að kjósa það að auglýsa frekar í gegnum Alfreð en í prentmiðlum?
Það er mjög erfitt að segja. Gríðarlega mikið af okkar auglýsendum eru alfarið hættir að auglýsa í blöðum og margir þeirra auglýsa einungis hjá okkur af þeim íslensku miðlum sem eru í boði. Margir notast síðan við samfélagsmiðlana, en það er gríðarlega erfitt fyrir okkur að mæla þær birtingar og bera saman við okkar grunn.

Afhverju ættu allir að sækja sér Alfreð strax í dag og fylgjast með auglýstum störfum þar?
Það er hollt fyrir alla að fylgjast með atvinnumarkaðnum, og þá sérstaklega því sem er að gerast í þeim geira sem fólk starfar innan. Það er sára einfalt að stilla vöktun á þeim starfsmerkingum sem eiga við þekkingu- og/eða reynslu eða jafnvel starfsheitum. Það er aldrei að vita nema draumastarfið verði laust og þá er eins gott að vera tilbúin(n) og sækja um.

Hvaðan kemur þetta skemmtilega nafn Alfreð?
Helgi Pjetur sem er einn af stofnendum Alfreðs nefndi appið Alfreð eftir Alfred Pennyworth sem er skáldsagnapersóna og best þekktur sem brytinn í Batman. Honum fannst nefnilega líkindi með þeim þegar hann var búinn að hanna Alfreð kallinn.

Við hvetjum ykkur eindregið til þess að byrja að fylgjast með störfunum hans Alfreð strax í dag og kynna ykkur málið betur hér.

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.