Veðráttan á landinu okkar fagra býður því miður ekki upp á kjöraðstæður fyrir vel nærða og rakamikla húð. Loftið er þurrt og hitabreytingar eru tíðar sem að veldur þurrki og öðrum húðvandamálum, sem svo getur orðið lýjandi og erfitt að eiga við. Við ræddum við Berglindi Sveinu en hún er sérfræðingur í húðumhirðu. Hún fær reglulega til sín viðskiptavini á snyrtistofuna Fegurð í Hafnarfirði sem eru jafnvel komnir í þrot varðandi húðina á sér og eru að nota engar eða rangar húðvörur. Berglind Sveina er snyrtifræðimeistari  að mennt ásamt því að vera með kennsluréttindi frá Háskóla Íslands á því sviði. Okkur fannst virkilega áhugavert að fá góð ráð hjá henni þar sem að hún sérhæfir sig í húðumhirðu og sértækum andlitsmeðferðum.  Berglind hefur mikla reynslu af því að veita persónulega þjónustu í því að finna lausnir í sameiningu við sína viðskiptavini og að setja með þeim markmið og meðferðir sem henta hverjum og einum.

Er mikilvægt fyrir alla að hugsa á annan hátt um húðina á veturna en á sumrin?
Stutta svarið er já. Íslenskt veðurfar er ekki það besta fyrir húðina okkar og sérstaklega ekki á veturna. Húðin okkar þornar og þarf mikla næringu yfir veturinn. Þurr húð verður mun þurrari og viðkvæmari, feitari húðgerðir fá yfirborðsþurrk og stíflast meira undir og þ.a.l. verður meiri bólu- og fílapenslamyndun þar sem náttúrulega húðfitan okkar á erfiðara með að komast upp á yfirborðið þegar svona mikill þurrkur er þar, jafnvel í langan tíma.  Á veturna er gott að nota þykkari krem með veðravörn og huga vel að hreinsun. Góð rútína er að yfirborðshreinsa húðina bæði kvölds og morgna, og alls ekki gleyma að nota andlitsvatn (toner) á eftir. Andlitsvatnið jafnar út pH gildi húðarinnar eftir yfirborðshreinsunina. Ég mæli með að djúphreinsa húðina að minnsta kosti einu sinni í viku og nota viðeigandi maska strax á eftir, hvort sem það er nærandi eða hreinsandi maski.

Hvernig breytist húðin með aldrinum og frá hvaða aldri þarf maður að byrja að huga vel að henni?
Húðin þynnist með aldrinum og það hægist á allri endurnýjun. Þess vegna þurfum við að hjálpa henni með því að nota góð krem og hreinsa hana. Maður á alltaf að hugsa vel um húðina en ég miða oft við það að byrja á því að nota virkar vörur um 25 ára aldurinn, fyrir þann tíma, þ.e.a.s ef ekkert amar að húðinni er nóg að nota  gott rakakrem og hreinsa húðina fyrir svefninn.

Hver er leyndardómurinn að hinni fullkomnu húðrútínu?
Held að það sé enginn leyndardómur. Það sem hentar einum hentar ekkert endilega öðrum, þetta er mjög persónubundið. Ég held að aðalatriðið sé að nota vörur sem henta þér og fá ráðleggingar hjá fagaðila. Hjá okkur á snyrtistofunni Fegurð er til dæmis  frítt að koma í húðgreiningu og mælingu og fá þá ráðgjöf frá fagaðila hvað hentar þér best í framhaldi af því.

Er betra að nota lífrænar húðvörur?
Ekkert endilega,  þó ég mæli ekki með því að nota mjög kemískar vörur. Ég  vil alltaf fá sem mest úr náttúrunni og vil alls ekki nota vörur sem eru prufaðar á dýrum. Fyrir mér er líka mikilvægt að vita hvaðan innihaldsefnin koma, hvort snyrtivörufyrirtækið rækti sjálft sín innihaldsefni eða flytji allt inn til sín frá öllum heiminum, sem við vitum jafnvel ekki hvað er.

Hver eru þín ráð til þess að byrja að hugsa vel um húðina strax í dag?
Ef í vafa þá endilega koma og fá ráðleggingar. Ekki kaupa einhverja vöru sem er vinsæl af því bara, það hentar oft ekki. En ég segi að lykillinn sé að byrja á skrefi númer eitt sem er að yfirborðshreinsa með hreinsimjólk/hreinsigeli/hreinsifroðu og nota andlitsvatn. Svo að huga að góðu kremi fyrir húðina. Kynna sér svo í framhaldi hvað gæti hentað þinni húðtegund.

Hverjar eru þínar uppáhalds húðvörur og hversvegna?
Mínar uppáhalds vörur eru þær sem ég vinn með á stofunni í dag og heita Janssen Cosmetics, þær vörur eru frá Þýskalandi. Þær eru ekki prufaðar á dýrum og eru meðal annars með heila lífræna/vegan vörulínu. Vöruúrvalið er mjög breitt hjá þeim og er því hægt að þjónusta alla, hvort sem það er yngri eða eldri húð, blönduð eða þurr.

Í lokin, ertu með góð ráð fyrir þá sem starfa í þurru skrifstofulofti allan daginn?
Fólk sem vinnur á skrifstofum, fyrir framan tölvu allan daginn þarf líka að huga vel að húðinni þar sem loft er oft mjög þurrt þar sem margir vinna saman í stóru húsnæði. Loftræsting þurrkar húðina líka, þá er gott að huga vel að skrefi nr.1 að hreinsa húðina kvölds og morgna og nota góð krem.

Eins og hér hefur komið fram er að ansi  mörgu að huga þegar kemur að umhirðu húðarinnar. Það er alltaf gott að fá ráð hjá sérfræðing og því ekki að leyfa sér smá andlits dekur í leiðinni og lífga upp á skammdegið.  Mikilvægt er að drekka vel af vatni og borða næringarríkan mat, húðin mun þakka ykkur fyrir það með því að  ljóma. Ávallt að nota góða sólarvörn, jafnvel á veturna. Hægt er að fá mörg góð krem eða farða með sólarvörn í sem er góð lausn, þ.e þegar ekki er legið á sólarströnd þá þarf að nota sólarvörn að lágmarki 30 spf. Passa vel  upp á vítamín búskapinn og ekki er verra að hafa rakatæki á heimilinu. Síðast en ekki síst má ekki gleyma að minnast á að bursta húðina reglulega,  bera góð krem á kroppinn, eiga góðan handáburð og jafnvel fyrir þá alla áhugasömustu, að fjárfesta í góðu fótakremi.

Hér eru nokkrar hugmyndir af góðum möskum

  1.  Origins Drink up intensive overnight mask er æðislegur næturmaski sem hjálpar húðinni að halda í rakann fyrir þurra húð
  2. Blue Lagoon silica mud mask djúphreinsar, eykur orku og útgeislun. Við segjum ekki nei við því
  3. L´ORÉAL Clay Eucalyptus maski er góður djúphreinsandi maski á góðu verði
  4. Glamglow Thirstymud hydrating treatment gefur húðinni samstundis mikinn raka
  5. Mitt persónulegt uppáhald er Turmeric og cranberry seed maskinn frá Kiehl´s, en ein frábær vinkona benti mér á hann. Maður sér strax mun á ljóma húðarinnar, hann fæst því miður ekki hér á landi en ef þið sjáið hann erlendis mæli ég með því að næla ykkur í hann. 
Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

One Reply to “Mikilvæg húðumhirða í kuldanum”

Comments are closed.