Eftir að hafa sest niður með Gyðu Kristjánsdóttur, ráðgjafa hjá Hagvangi og fengið að vita meira um þeirra hlutverk koma hér nokkur praktísk atriði er varða starfsframa og atvinnuleit.

Hvað gerir Hagvangur?
Hagvangur er ráðninga- og ráðgjafafyrirtæki sem býður þjónustu við flest það er snýr að mannauðsmálum. Hjá Hagvangi starfa 9 sérfræðingar, annars vegar við ráðningar og hins vegar við stjórnenda- og mannauðsráðgjöf. Hagvangur þjónustar árlega hundruði viðskiptavina við ráðningarráðgjöfpersónuleika- og hæfnipróf og margt fleira.

 

Hvaða kostir fylgja því að vera hjá ykkur á skrá – í staðinn fyrir að skoða sjálfur atvinnuauglýsingar?
Að vera á skrá hjá Hagvangi kostar ekkert, og þar sem aðeins lítill hluti starfa er auglýstur fyrir almenningi þá eykur það líkurnar á starfi að vera með umsókn skráða hjá ráðningarstofu. Hagvangur býr yfir 40 ára reynslu og hefur milliganga þeirra skilað þúsundum Íslendinga nýjum atvinnutækifærum. Mikill meirihluti þeirra starfa, eða um 70 – 80% sem Hagvangur ræður í eru aldrei auglýst, einfaldlega vegna þess að fyrirtækin vita að við höfum beinan aðgang að miklum fjölda afburða starfsfólks í gegnum okkar gagnagrunn.

Hvaða ráð hafið þið fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði, t.d eftir nám?
Þeir sem eru nýútskrifaðir geta miðað starfsleit sína við það nám sem þeir hafa lokið. Sumarstörf, störf með námi, félagsstörf og áhugamál geta ennfremur verið áhugaverð fyrir verðandi atvinnuveitanda. Öll reynsla er reynsla og það má ekki gera lítið úr henni.
Hið augljósa er svo auðvitað að sýna vandvirkni þegar kemur að sínum fyrstu skrefum á vinnumarkaðnum, orðspor berst hraðar en vindurinn, og vindurinn berst ansi hratt á Íslandi.

Hvað með þá sem langar að skipta um starfsvettvang eða prófa eitthvað nýtt?
Hægt er að vera á skrá hjá Hagvangi, þrátt fyrir að vera nú þegar í öðru starfi, þar sem fulls trúnaðar er alltaf gætt. Það er mjög eðlilegt að vilja prófa eitthvað nýtt, spreyta sig á nýjum og annars konar störfum eða verkefnum og þá er gott að útskýra í t.d. kynningarbréfi hvers vegna áhugi er fyrir breytingunni og segja jafnframt frá því sem maður hefur gert eða lært sem gæti tengst þessum nýja áhuga.

Hvaða verkfæri notið þið til að meta þá einstaklinga sem eru á skrá hjá ykkur og til að para þá saman við réttu störfin ?
Fyrst og fremst notum við starfslýsinguna og þær kröfur sem fyrirtækin gefa okkur upp, síðan tökum við gjarnan þá aðila, sem passa best við það, í nánari viðtöl. Í þeim viðtölum er beitt ákveðin spurningatækni til þess að ná fram þeim upplýsingum sem eru mikilvægar fyrir viðkomandi starf. Við framkvæmum líka persónuleikapróf, með það að leiðarljósi að fá betri samsvörun. Hagvangur styðst við Hogan Personality Inventory persónuleikapróf sem hefur verið í þróun frá því um 1970. Þessu til viðbótar eru umsækjendur í æ ríkari mæli beðnir um að leysa verkefni sem tengjast því starfi sem þeir sækja um.

Linkedin – Er það mikið notað hér á landi?
LinkedIn er eitthvað notað já, en hefur kannski ekki verið mjög virkt hérlendis miðað við í öðrum. En við sjáum aukningu erlendis sem mun líklega á endanum skila sér til okkar.

“Head-huntið” þið ?
Já – það gerum við. “Head- hunting” gegnir í dag stærra hlutfalli við ráðningar, sér í lagi stjórnanda.  Við pörum líka fólk á skrá hjá okkur við ákveðin störf og leggjum okkur ávallt fram við að finna þá einstaklinga sem passa best við þarfir og óskir viðkomandi fyrirtækis.

Hvaða vægi hefur ferilskrá í ráðningarferlinu?
Gögn sem þú sendir atvinnurekanda um sjálfan þig eru fyrstu kynni atvinnurekandans af þér, og því eitt mikilvægasta skrefið í atvinnuleitinni. Óhjákvæmilega gæti atvinnurekandi dregið ályktanir af því sem þar er að finna og getur t.d. frágangur og uppsetning umsóknar haft mikil áhrif á möguleika þína á viðtali. Þín eigin ferilskrá gefur þér tækifæri til að lýsa sjálfum þér á þinn hátt og einnig að setja efnið fram eins og þér finnst henta best. Það getur farið eftir starfinu sem verið er að sækja um, en algengt er að fólk telji að ferilskráin þurfi að vera mjög yfirgripsmikil og mikið skreytt. Það er alls ekki raunin og eru oft þessar einföldu og hnitmiðuðu sem koma upplýsingunum hvað best á framfæri.

Hér má sjá dæmi um ferilskrá.

Mikilvægi kynningarbréfs – góð ráð?
Það er að færast í aukana að óskað sé eftir kynningarbréfum með umsóknum og er því mikilvægt að það sé vel unnið. Þar á að koma fram hvers vegna þú sækir um starfið, og hvaða þekkingu, reynslu og hæfni þú hefur fyrir viðkomandi starf. Það þarf því að miða hvert kynningarbréf að því starfi sem sótt er um þar sem hæfniskröfur eru mismunandi. Forðast skal að endursegja ferilskrána og líta má á kynningarbréfið sem tækifæri til að segja betur frá ákveðinni reynslu eða þekkingu sem nýtist í viðkomandi starf. Mikilvægt er að hafa það heldur hniðmiðað og ekki of langt.

Hér kemur dæmi um uppsetningu á kynningarbréfi:

Inngangur
· Af hverju ert þú að sækja um starfið?
· Hvernig/hvað þekkir þú til fyrirtækisins?
· Hversu mikla reynslu og þekkingu hefur þú á umræddu sviði?

Innihald
· Á hvaða sviðum uppfyllir þú þær kröfur sem fyrirtækið hefur sett fram?
· Dragðu athyglina að þeirri reynslu/þekkingu sem þarf í starfið
· Af hverju ættir þú að fá starfið?

Lokaorð
· Áskorun/ósk um frekari viðræður?
· Stutt og hnitmiðuð lokaorð.
· Undirskrift

Hægt er að leggja inn umsókn hér

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

One Reply to “Hagvangur”

Comments are closed.