Háskólanám með fullri vinnu – Hvað er í boði og hentar það þér?

Við njótum þeirra forréttinda í dag þar sem valmöguleikarnir eru nánast endalausir þegar kemur að námi eða starfsvettvangi. Síðustu ár eru sífellt fleiri farnir að kjósa það að stunda háskólanám með vinnu, bæði grunnnám og meistaranám. Ástæðurnar geta verið margvíslegar en tæknin spilar þar stóran þátt. Flestir skólar eru farnir að bjóða nemendum upp á að stunda námið í fjarnámi þar sem allir fyrirlestrar eru teknir upp og samskipti við kennara og aðra nemendur fara að mestu leyti fram í gegnum netið. Annar möguleiki er nám sem kennt er síðdegis og sá þriðji eru námsleiðir sem eru sérsniðnar fyrir þá sem að eru í fullu starfi. Þegar kemur að vali á námi þá er í mörg horn að líta og mikilvægt að vita hvert maður stefnir og hvaða þekkingu manni langar að hafa öðlast í lok námsins. Við höfðum samband við nokkra af háskólum landsins og fengum smá innsýn í þá möguleika sem eru í boði fyrir ykkur sem eruð að íhuga það að skella ykkur í háskólanám en langar að halda áfram að safna mikilvægri reynslu í atvinnulífinu.

Hvaða nám er í boði með fullri vinnu?
Fjarnám hefur notið mikilla vinsælda og eru nokkrir háskólar á Íslandi sem sérhæfa sig sérstaklega í því og veita mjög faglega og persónulega þjónustu.

Þeir skólar sem falla þar undir eru Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri. Þar eru flestar námsbrautir kenndar í fjarnámi og möguleiki að setja námið upp nákvæmlega eftir sínu höfði, þ.e að ákveða á hversu löngum tíma þú kýst að taka námið. Dæmi eru um að nemendur í fullri vinnu séu að taka allt frá 20% námshlutfalli á önn og upp í 100% námshlutfall. Allt eftir því hvað hver og einn treystir sér til. Háskóli Íslands býður upp á svokallað VMV sem stendur fyrir viðskiptafræði með vinnu og er það kennt í lotum og hefjast tímar seinnipartinn. Það nám hentar vel þeim sem vilja stunda fulla vinnu en hafa möguleika á því að mæta líka í tíma. Háskóli Íslands býður einnig upp á aðrar námsbrautir í fjarnámi og hvetjum við ykkur til þess að skoða námsframboðið. Listaháskóli Íslands er með námsbrautir þar sem viðveru er krafist og hentar því ekki jafn vel fyrir þá sem eru að vinna í fullu starfi frá 9-5. Háskólinn í Reykjavík býður einnig upp á úrval námsbrautir í fjarnámi, en er þó með fleiri námsbrautir þar sem viðveru er krafist, með möguleika á að skipuleggja námshlutfallið sjálfur.

Þegar kemur að meistaranámi þá er möguleiki að skipuleggja sig þannig að það henti vel með vinnu með flestar námsbrautir, t.d með því að minnka námshlutfall. MBA og MPM er nám sem kennt er bæði í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík og er það sérsniðið fyrir þá sem að eru virkir í atvinnulífinu. Til að mynda þarftu að búa yfir nokkurra ára starfsreynslu til þess að fá inngöngu í MBA og MPM námið.

Hverju þarf að huga að þegar ákveðið er að hefja nám með fullri vinnu?
Gott er að ræða áhugann fyrir því að fara í nám við vinnuveitanda þinn þar sem að það er mikilvægt að fá stuðning frá vinnustaðnum þínum áður en þú hefst handa. Að stunda nám með vinnu getur krafist þess að þú þurfir að fá leyfi á álags og prófa tímum. Einnig getur verið hjálplegt að ræða við einhvern sem hefur stundað sambærilegt nám með vinnu og fá ráðleggingar um það á hvaða hraða það myndi henta þér að taka námið, eins getur þú rætt við námsráðgjafa. Ef þú ert einnig með fjölskyldu þarf að ræða við alla fjölskyldumeðlimi um námið því eins og áður hefur komið fram þá kemur fyrir að maður þurfi að fórna kvöldstundum og helgum og því mikilvægt að hafa gott bakland og stuðning. 25-30 klst vinna er miðuð við hverja ECTS einingu en hvert námskeið er oftast um 6 ECTS einingar og því gott að hafa þennan tímaramma til þess að miða við.

Er hægt að fá styrki eða námslán til þess að stunda nám með fullri vinnu?
Flest öll stéttarfélög styrkja þá sem fara í nám og er styrkurinn mishár eftir hverju og einu félagi. Oft er styrkurinn þó ekki hærri en helmingur námsgjalda. Margir vinnustaðir styrkja starfsmenn sína á móti stéttarfélögum og gera við þá ákveðinn námssamning á meðan á námstíma stendur. Það er góð fjárfesting að styðja við menntun mannauðsins og verða starfsmenn verðmætari. Námslán skerðast þegar tekjur fara yfir ákveðin mörk og ef maður er í fullu starfi er mjög líklegt að námslánin skerðist að fullu. Enda er það frábært að ljúka námi án allra námslána.

Eins og fram kemur hér að ofan eru möguleikarnir þegar kemur að vali á námi nánast óteljandi. Allt nám er dýrmæt reynsla, það stækkar tengslanetið og víkkar sjóndeildarhringinn til muna. Það  eykur einnig möguleika manns á því að landa draumastarfinu. Að stunda nám með fullri vinnu reynir á skipulagshæfileikana og sjálfsagann og mun maður ávallt búa að því, og svo við gleymum nú ekki að minnast á það að reynsla í atvinnulífinu gefur manni dýpri og betri skilning á námsefninu.  Undirrituð hefur sjálf stundað nám með vinnu síðustu ár og getur gefið þau ráð að njóta þess að vera í námi. Njótið þess að nýta það sem þið eruð að læra í ykkar daglegu störfum,  gerið námið að áhugamáli ykkar og andið djúpt ef þolinmæðin fer að dvína. Og síðast en ekki síst ekki gleyma að hugsa um líkamlega og andlega heilsu, sérstaklega á álagstímum. Stundum virðist námið engan endi ætla að taka þegar maður er að taka það hægar, en ég get lofað ykkur því að þetta verður búið mun fyrr en þið haldið, og er svo þess virði.

Athugið að námið sem er upptalið hér að ofan er ekki tæmandi listi og því um að gera að skoða nánar hvaða möguleikar eru í boði sem hentar þínu áhugasviði.

 

 

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.