Arna Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri SILENT tók u-beygju á starfsvettvangi eftir að útskrifast sem lögfræðingur. Í dag er Arna á leið aftur til vinnu eftir fæðingarorlof en hún eignaðist nýlega sitt fyrsta barn. Örnu finnst vinnumarkaðurinn almennt ekki hafa mikið svigrúm fyrir ungar mæður sem setja stefnuna einnig á frama í atvinnulífinu. Arna er mjög spennandi kona sem við höfðum afskaplega gaman að fá að heyra meira um.

Við komum okkur vel fyrir í frostinu á Kruðerí Kaffitárs á Höfðanum einn fallegan seinnipart í desember. Með heitan bolla og gotterí byrjum við að fara aðeins yfir hlutina með henni Örnu.

Arna er uppalin í Garðabæ og býr nú í Grafarvoginum ásamt sambýlismanni sínum Sigvalda Jónssyni og dóttur þeirra, Hrafntinnu. Arna hefur verið í fæðingarorlofi síðustu átta mánuði en hún byrjar í vinnu aftur núna í janúar og er full tilhlökkunar.

LÖGFRÆÐIMENNTUNIN NÝTIST VEL Í STARFI
Arna fór þessa “týpísku” námsleið eins og hún segir sjálf, í grunnskóla, framhaldsskóla og beint í háskóla en þar varð lögfræði við Háskóla Reykjavíkur fyrir valinu. “Ég veit ekki alveg hvernig sú ákvörðun þróaðist hjá mér að fara í lögfræði en ég var alltaf spennt fyrir að fara í Lögregluna. Ég var aldrei mikill námshestur svo þetta var eiginlega frekar fyndið námsval þar sem þetta er ekki beint “auðveldasta” námið til að velja sér, en fimm árum síðar útskrifaðist ég úr meistaranámi með fína einkunn og hélt þá að ég myndi vita upp á hár hvaða starfsframa ég myndi ætla mér, en svo var ekki.”
Þrátt fyrir að Arna hafi farið námsleið sem kom í ljós að hentaði henni ekki segir hún að lögfræðimenntunin komi sér mjög vel í starfi sínu. “Þrátt fyrir að starfa ekki í lögfræðilegu umhverfi, þá er bakgrunnurinn og þekkingin úr lögfræði án efa að nýtast mér daglega.”
Arna fór í skiptinám til Lund í Svíþjóð þegar hún var í meistaranáminu sem hún segir hafa verið besta ákvörðun sem hún hefur tekið á námsferlinum. “Ég mæli klárlega með því fyrir alla sem eru að skoða nám að fara í skiptinám eða bara einfaldlega að fara í háskólanám erlendis. Ég fékk svo miklu betri sýn og stefnu almennt, en það var eiginlega þar sem ég ákvað að sætta mig við að ég vildi starfa við eitthvað annað en lögfræði þó ég ætlaði mér að klára námið. Stundum þarf maður einfaldlega að breyta um umhverfi til að sjá hlutina í nýju ljósi.”

FÓR ÓHEFÐBUNDNA LEIÐ TIL AÐ FÁ DRAUMASTARFIÐ
Arna sagði fljótlega upp lögfræðistarfi sem hún fékk eftir útskrift því þar fékk hún endanlega staðfestingu á að hún vildi líta á önnur tækifæri. “Ég var í sólbaði með mömmu minni, nýbúin að segja upp starfinu sem ég fékk eftir útskrift þegar ég sá skemmtilega starfslýsingu á Facebook sem vinur minn deildi og var það að stýra verkefni á Ísafirði sem fól í sér upptökur frá Mýrarboltanum, en það verkefni var s.s fyrir SILENT.” Arna var algjörlega heilluð af starfinu og sá að þetta var starf sem hana langaði mikið í, en hún þurfti að hugsa út fyrir kassann til þess að lenda starfinu. “Ég bókaði fund með Davíð, eiganda SILENT með tillögu um að fá að koma í prufu í viku fyrir starf hjá þeim, en á þessum tíma voru þeir ekki að ráða neinn í fyrirtækið. Ég tók s.s vikuverkefni að mér sem einskonar próf fyrir starfið, lagði mig alla fram og fékk svo þar af leiðandi 100% ráðningu sem verkefnastjóri.” Arna segir að henni hafði aldrei áður dottið í hug að sækja um starf með öðrum hætti en að senda umsókn og ferilskrá, en þessi óhefðbundna aðferð hafi skotgengið og heillað stjórnendur fyrirtækisins, enda leggur fyrirtækið sjálft upp með óhefðbundna markaðssetningu að miklu leyti.

SILENT er framleiðslufyrirtæki sem sérhæfir sig í myndbanda- og auglýsingagerð á netinu. Fyrirtækið var stofnað árið 2009 af Davíð Lúther Sigurðssyni og fer stækkandi með hverju árinu. “Við framleiðum auglýsingar aðallega fyrir stafræna miðla og tökum einnig upp myndbönd fyrir ráðstefnur, íþrótta- og menningarviðburði sem og kynningarmyndbönd. Það sem hefur færst mikið í aukana síðustu ár eru innanhúsmyndbönd hvort sem það eru fræðslu-, kynningar eða öryggismyndbönd eða viðburðir hjá fyrirtækjum. Við erum í raun að framleiða allt sem tengist myndbandsupptöku fyrir stór sem smá fyrirtæki, hvort sem það tengist neti eða sjónvarpi.”

VERÐUR UNG FRAMKVÆMDARSTJÓRI
Arna lagði sig alla fram í starfinu og sótti sér upplýsingar og fróðleik hvar sem hún gat fengið hann. “Ég ætlaði mér að ná langt í þessu starfi og var gjörsamlega eins og svampur að sækja mér visku og þekkingu fyrstu árin og það er einhvernveginn eins og það hafi kviknað ást hjá mér til fyrirtækisins mjög snemma. Mér líður vel þarna og það er svo mikill drifkraftur og ákveðið brjálæði, sem ég elska.”
Aðeins tveimur árum eftir að hún byrjaði að starfa hjá SILENT var Örnu boðið að taka við framkvæmdarstjórastöðunni, aðeins 28 ára gömul. “Það er að sjálfsögðu mjög krefjandi að vera framkvæmdastjóri, sérstaklega þar sem ég tók við starfinu með enga reynslu af rekstri á heilu fyrirtæki, en ég tók þessu starfi með það fyrir stafni að skora á sjálfa mig, leiða hópinn áfram og koma fyrirtækinu lengra. Í dag er SILENT búið að tvöfalda starfsmannafjöldann síðan ég byrjaði árið 2014 og starfa þar hæfileikaríkir og sérfróðir aðilar með mismunandi bakgrunn. Framtíðarsýnin er skýr og tækifæri á hverju horni.”

MARKMIÐ MIKILVÆG
Arna segir að markmiðasetning sé mikilvægur hluti af hennar ferli og þá helst litlu markmiðin sem hún setur sér. “Þegar ég var nýbyrjuð hjá SILENT ákvað ég að setja mér nokkur lítil markmið, ekkert of ógnvekjandi svona meðan ég var að prófa mig áfram á nýjum starfsvettvangi. Fljótlega sá ég hvað þessi litlu markmið voru drífandi og hvetjandi. Enn þann dag í dag fylgi ég þessari stefnu minni og set mér lítil markmið, og eins að fagna þessum litlu sigrum. Ég er óþolinmóð að eðlisfari og því hafa langtímamarkmið ekki alveg hentað mér, ég er oftast búin að breyta þeim hundrað sinnum eða gleyma þeim. Í rauninni má segja að ég sé að taka stórt markmið og brjóta það niður í áfanga.“
Arna er búin að nýta sér markmiðasetningu í þó nokkurn tíma núna og var bent á að notast í dag við smáforrit í símann til þess að hjálpa sér að halda utan um þau markmið sem hún setur sér. „Mér var bent á frábært markmiða smáforrit sem ég hef verið að nota í nokkra mánuði núna, forritið heitir Strides og er hægt að nálgast það í App Store, en það heldur utan um þau markmið sem þú setur þér og þá ertu með algjöra yfirsýn yfir hvort þú sért að fylgja því eftir eða ekki. Sem dæmi hef ég aldrei á ævinni notað tannþráð jafn mikið og eftir að ég byrjaði með þetta smáforrit.” Segir Arna hlæjandi.
Arna mælir með því að prófa að setja sér nokkur minni markmið eða að brjóta niður stóra markmiðið sem stefnt er að og muna að fagna öllum litlu sigrunum.

AÐ VERA UNG KONA Í STJÓRNUNARSTARFI
Arna segir að hún finni ekki fyrir ógn eða óvirðingu í sinn garð sem ung kona í stjórnunarstöðu, en að hún finni þó fyrir að hún þurfi að sanna sig meira. “Það fer alveg eftir því hvernig týpur það eru sem sitja við fundarborðið hvernig viðhorfið er. Almennt finnst mér nútímamaðurinn oftast vera mikill stuðningsmaður kvenna í stjórnunarstöðum og finn ég oftast nær fyrir stuðningi, virðingu og trausti í minn garð. En svo kemur það fyrir að maður hittir á týpu sem hefur eldra viðhorf, þá getur farið dágóður tími að vinna sér inn traust. Það hefur til dæmis gerst á fundi að mér hefur liðið eins og ég hafi ekki haft sömu rödd og aðrir við borðið. En nú í dag hef ég tamið mér það að reisa mig enn hærra í sætinu, minna oftar á mig, hafa eitthvað til málanna að leggja og sýna frumkvæði, í stað þess að síga í sætið og bíða eftir að bent verði á mig eða mér gefið orðið. Svo er líka algjörlega ómetanlegt að hafa gott bakland á svona fundum.”

AÐ BYRJA AFTUR AÐ VINNA EFTIR FÆÐINGARORLOF
Eins og segir hér fyrir ofan eignaðist Arna sitt fyrsta barn, hana Hrafntinnu, á síðasta ári og er að hefja störf aftur núna í janúar eftir um átta mánaða fæðingarorlof. “Í dag er ég orðin rosalega spennt að koma til baka og finn að ég er tilbúin að mæta aftur til vinnu. Fyrr í sumar var ég hinsvegar orðin kvíðin fyrir að fæðingarorlofið myndi enda, þegar Hrafntinna var orðin svona fjögurra mánaða. Ég var oft andvaka yfir því að þurfa að stíga út fyrir veggi heimilisins en mig langaði helst á þeim tímapunkti að eyða allri ævinni með henni heima. Þetta var hrikalega óþægileg tilfinning og skapaði mikið óöryggi hjá mér. Þetta var í fyrsta skipti síðan ég fór á atvinnumarkaðinn að mér fannst ég vera í togstreitu við sjálfa mig. Annars vegar fannst mér ég vera að missa af öllu sem var að gerast uppí vinnu, alltaf svo mikið líf og fjör og mig langaði svo að vera með í öllu sem þar gekk á, en svo hins vegar langaði mig líka bara að vera heima með þetta litla dýrmæta líf sem ég hafði í höndunum.”
Arna segir að hún hafi verið mest hissa á hversu margar konur undruðust yfir því hversu langt fæðingarorlof hún hefði fengið þar sem hún væri framkvæmdastjóri. “Mér finnst átta til níu mánuðir alls ekkert langur tími, enda er ég að læra að vera mamma í fyrsta skipti á ævinni og hefði mér fundist gríðarlega sorglegt ef ég hefði misst þennan tíma með litlu stelpunni minni einungis vegna þess að ég kaus að vera í stjórnunarstöðu. Það er svolítið eins og þetta þurfi að vera annað hvort eða og ekki hægt að gera bæði.”
Arna undrar sig á hvernig hugsunarháttur samfélagsins getur orðið en hún segir það oft ekki vera auðvelt að vera kona á framabraut og stofna fjölskyldu á sama tíma. “Mér finnst vinnumarkaðurinn oft almennt ekki gefa mikið svigrúm fyrir ungar mæður sem stefna á frama í atvinnulífinu á sama tíma og þær eru að stofna til fjölskyldu, eða það er amk. ekki verið að gera þeim auðvelt fyrir. Margar ungar konur sem ég þekki hafa þurft að hugsa vel og vandlega hvernig þær hafa ætlað sér að ná bæði að eignast börn og haldast á vinnumarkaði án þess að missa af stöðuhækkunum, launahækkunum og fleiru.”
Arna segir að hún hafi fundið hversu mikilvægur þessi tími hafi verið með dóttur sinni og það hafi skipt hana öllu máli að vita af starfinu sínu öruggu og fyrirtækinu í góðum höndum.

MIKILVÆGT AÐ HAFA GOTT TENGSLANET
Arna segir það vera mjög mikilvægt að byggja upp tengslanet sama hvaðan það kemur, en Arna er meðlimur í FKA – Framtíð sem við fjölluðum betur um hér. “Ég er nýkomin í FKA-Framtíð sem var stofnað 2017 og er rosalega spennt yfir þessu félagi. Það er svo magnað hvað það er gaman að hitta og kynnast öðrum flottum framakonum í atvinnulífinu. Það sem mér finnst ég fá mest úr því að vera í svona skipulögðu tengslaneti er bæði það að tengjast konum sem eru á svipuðum stað og ég, sem og að geta fengið ráð og geta gefið ráð. Mér finnst þetta vera mjög hvetjandi umhverfi og ég gjörsamlega fyllist innblæstri eftir hvern einasta hitting.”
Hjá FKA – Framtíð er Arna að taka þátt í “mentoring prógrammi” sem þau bjóða upp á. Þá er hún pöruð saman með einni forystukonu með mikla reynslu frá Leiðtoga Auði sem getur getur leiðbeint henni í starfi. “Við hittumst amk. einu sinni í mánuði og er hún til staðar til að gefa mér ráð og leiðbeiningar þegar ég þarf á því að halda auk þess sem við erum að mynda framtíðartengsl við hvor aðra og vinskap. Minn leiðbeinandi er ótrúlega flott kona og fyrirmynd og mér líður í hvert sinn eins og ég sé að komast ofan í gullkistu með því að fá aðgang að svona flottri konu sem er með margra áratuga reynslu á því sviði sem ég er rétt byrjuð á.”
Arna segir þetta verkefni vera algjörlega ómetanlegt fyrir ungar konur og hvetur til þess að þær skoði það að fara í svona skipulagða hópa, hvort sem það er FKA, FKA – Framtíð, UAK eða bara eitthvað sem hentar hverri og einni.

Arna er afskaplega skemmtileg og hvetjandi manneskja en undirritaðri fannst hún geta sigrað heiminn eftir þetta viðtal og hlakkar okkur til að fylgjast meira með þessari flottu konu. Ef þið viljið fylgjast með Örnu og starfi hennar er hægt að fylgja henni á samfélagsmiðlum.

Instagram/arnathorsteins
Linkedin/arnathorsteins

Díana Bergsdóttir
Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.

Author: Díana Bergsdóttir

Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.