Nýtt ár, ný markmið

Nú þegar nýtt ár er að hefjast eru eflaust margir að huga að því að strengja áramótaheit sem snýst um það eitt að auka hreyfingu sína. Áramótaheit geta oft verið mjög góð en þó margt sem þarf að hafa í huga þegar slík heit eru gerð.

Algengt er að einstaklingar sem strengja áramótaheit séu mjög ,,módiveraðir” í byrjun árs og setja sér því oft stór markmið um að bæta líf sitt til hins betra. Það er ekki óalgengt í byrjun árs að fólk bindi sig í áskrift hjá líkamsræktarstöðum, kaupi sér æfingaprógram, nýjan íþróttafatnað og byrji nýja árið af fullum krafti. Það er þó því miður raunin að flestir gefast upp á fyrstu mánuðum ársins og líkamsræktarstöðvar því hálftómar strax í mars-apríl.

Flestir segja það vera auðveldara að byrja að stunda hreyfingu heldur en að viðhalda henni og gera hreyfingu að lífsstíl en talið er að um 50% af þeim sem byrja að stunda hreyfingu hætti því innan sex mánaða.  Að þessu sögðu er kjörið að fara yfir nokkur aðriði sem mikilvægt er að hafa í huga svo það sé líklegra að þú brennir ekki út á fyrstu mánuðunum og að þér takist að gera hreyfingu hluta af þínum lífsstíl.

Gerðu þér grein fyrir því afhverju þú vilt hreyfa þig

  • Það eru augljóslega margar ástæður fyrir því afhverju þú ættir að hreyfa þig en í amstri dags er mjög auðvelt að gleyma þeim. Skrifaðu þessar ástæður niður, það hjálpar þér að rifja upp hvers vegna þú ert að þessu og heldur þér á réttri braut.

Settu þér raunhæf markmið

  • Milvægt er að markmiðin sem sett eru í byrjun árs séu jákvæð, raunhæf og að almennur áhugi sé fyrir því að standa við þau.
  • Skrifaðu markmiðin þín niður á blað líkt og ástæðurnar fyrir því afhverju þú ert að þessu.
  • Settu þér markmið sem snúast um frammistöðu frekar en niðurstöðu. Það er mjög algengt að setja sér markmið sem snúa að því að léttast um ákveðin fjölda kílóa, missa ákveðna fituprósentu og þess háttar. Komið hefur í ljós að einstaklingar sem einblína á niðurstöðumarkmið eru ólíklegri til að ná markmiðum sínum heldur en þeir sem einblína á frammistöðumarkmið.
  • Dæmi um frammistöðumarkmið er að hreyfa sig að minnsta kosti 45 mínútur þrisvar sinnum í viku. Ef þér tekst að ná frammistöðumarkmiðum þínum eru í raun allar líkur á því að markmið sem snúast um niðurstöðu náist í leiðinni.

Finndu hreyfingu sem höfðar til þín

  • Sérhver hreyfing hentar ekki öllum, finndu það sem þú hefur áhuga á. Ef þú hefur ekki gaman að hreyfingunni sem þú hyggst stunda eru allar líkur á að þú brennir fljótt út. Þetta þarf ekki að vera erfitt. Ef þú nýtur þess að fara í göngutúr en nýtur þess ekki að fara í ræktina þá dugar það vel að byrja á því að fara í 30-45 mínútna göngutúr á dag.
  • Ekki væri verra ef þú myndir finna þér æfingafélaga, en þeir sem hafa einn slíkann eru ólíklegri til þess að hætta.

Viðhaltu hreyfingunni sama hvað

  • Bakslag er eðlilegt, en það er mikilvægt að leyfa sér ekki fara alveg aftur í gamalt form. Ef þú ert komin með leið þá er ekki vitlaust að prófa einhverja nýja hreyfingu. Ekki vera hrædd/hræddur að taka áskorunum og breyta til.

Vonandi koma þessi ráð til með að hjálpa ykkur það að ná markmiðunum ykkar.
Gangi ykkur rosalega vel & gleðilegt nýtt ár!

 

Eyrún Reynisdóttir
Eyrún er 26 ára fædd og uppalin á Akranesi. Eyrún er útskrifuð með BS.c. í Íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík og MS.c í Markaðsfæði og alþjóðaviðskiptum frá Háksóla Íslands. Eyrún hefur víðáttumikla þekkingu og reynslu á sviði heilsuræktar og hefur mikinn áhuga á öllu sem við kemur heilbrigðu líferni.

Author: Eyrún Reynisdóttir

Eyrún er 26 ára fædd og uppalin á Akranesi. Eyrún er útskrifuð með BS.c. í Íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík og MS.c í Markaðsfæði og alþjóðaviðskiptum frá Háksóla Íslands. Eyrún hefur víðáttumikla þekkingu og reynslu á sviði heilsuræktar og hefur mikinn áhuga á öllu sem við kemur heilbrigðu líferni.