Áramótin eru einskonar kaflaskil þar sem maður lítur yfir liðið ár, hvað hefur farið vel og hvað hefði mátt fara betur.

Þá horfir maður fullur eftirvæntingar til nýs árs og setur sér marmið fyrir það sem maður vill gera betur eða breyta í sínu lífi. En er þetta góður tími fyrir markmiðasetningu, að setja sér langtíma markmið fyrir nýja árið eftir að flestir hafa borðað úr sér allt vit af jólakræsingum, sleppt því að hreyfa sig í allri jólaönninni og eytt óhóflega yfir hátíðirnar? Eða er enginn tími betri en annar fyrir markmiðasetningu?

Við leituðum svara um markmiðasetningu til Ragnheiðar Aradóttur stofnanda og eiganda PROevents og PROcoaching, hún hefur 30 ára reynslu úr viðskiptalífinu m.a. sem stjórnendaþjálfari, ráðgjafi og stjórnendamarkþjálfi og á að baki um 2000 tíma í markþjálfun. Hún vinnur með stjórnendum fyrirtækja bæði hérlendis og erlendis og hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir þjálfun.

Er áramótaheit gott fyrir mann eða er það líklegt til að draga mann niður?

„Það sem skiptir öllu máli þegar setja á sér markmið, er að vera tilbúin að taka breytingum. Það sem drífur mann áfram til að gera umtalsverðar breytingar eða umbreyta lífi sínu er þegar lífið manns er komið í nógu mikið ólag, en ekki bara þegar maður er að reyna að bæta ástandið af því það væri ánægjulegra. Við sjáum dæmi um þetta í spjallþjáttum í sjónvarpi og í miðlum þar sem fólk hefur umturnað lífi sínu út úr afar erfiðum aðstæðum.”

„Það er gott að hafa reglu um tímamót í lífinu, að alltaf á ákveðnum tímum á árinu gerir  maður einhverjar umbætur, breytingar eða setji sér markmið og áramótin eru í sjálfu sér ekkert verri tími en hver annar. En áramót hafa festst í sessi hjá mörgum til að byrja nýtt ár á nýjum nótum, í staðinn fyrir að t.d. næsta mánudag ætla ég að gera breytingu í lífi mínu. Stóra spurningin er alltaf er ég að gera þetta vegna þessa að ég vil eða þarf eða vegna þess að allir eru að því. Þá gæti vantað raunverulegan innri hvata“

Getur þú gefið okkur góð ráð við markmiðasetningu?

„Í jákvæðri sálfræði er talað um jákvæð og neikvæð inngrip. Neikvætt er; ég verð að gera eitthvað í lífinu, t.d. fara í ræktina þó mann langi það ekkert. Hvatinn er ekki jákvæður á bakvið það og er þetta því frekar kvöð og ólíklegra að markmiðið náist. Jákvætt inngrip er að finna eitthvað sem mann langar til að gera til að ná markmiðinu. Dæmi gæti verið annarskonar hreyfing en að fara í ræktina fyrir þann sem ekki er hrifin af því, svo sem göngutúr, sund eða annað sem viðkomandi líkar að gera. Þá hefur vegferðin tilgang og þá er líklegra að við náum að breyta hegðun og ná markmiði okkar. Markmið snýst nefnilega svo mikið um “ferðalagið” sjálft en ekki endastöðina. Að njóta þess að gera það sem til þarf til að ná þeim árangri sem maður sækist eftir, en ekki pína sig og ætla svo að njóta þegar markmiði hefur verið náð.”

„Öll markmið þurfa að vera eitthvað sem þig langar og þráir, svo er gott að brjóta þau upp í minni  markmið og hugsa um þetta sem langhlaup. Ef markmiðið er til dæmis að stofna fyrirtæki þá þarf maður að setja sér raunhæf markmið og setja upp tímalínu með nokkrum vörðum, sem eru minni áfangar að hinu eiginlega markmiði. Mikilvægt er að huga að því hvað gæti staðið í vegi fyrir því að við náum markmiðinu. Hvaða hindranir gætu verið á leðininni og huga að því hvernig við munum þá takast á við þær hindranir til að vera alltaf með plan sem virkar. Auðvitað er ýmislegt ófyrirséð og ekkert við því að gera en rannsóknir sýna að þeir sem hafa hugað að þessum þætti eru líklegri til að ná markmiðum sínum. Leiðin verður auðveldari og má segja að búið sé að skafa veginn og hann því auðfarnari. Algengt er að fólk sleppi þessum þætti, við sem þjóð erum alla jafna  svo jákvæð og kappsöm  og viljum gjarnan ná  loka markmiðunum ekki seinna en í gær og þá er freistandi að horfa ekki á neinar hindranir.”

Hvers konar markmið er best að setja sér?

„SMART markmið er þekkt leið við markmiðasetningu og mikið notuð. Hún gengur út á að markmiðið þarf að vera sértækt eða afmarkað og verður þá mun skýrara. Markmiðið þarf að vera mælanlegt svo þú vitir hvenær þú hefur náð því, þér verður að finnast það áhugavert og virkilega langa til að ná því. Einnig verður það að vera raunhæft en maður má ekki vera of raunhæfur því þetta á að daðra við að vera varla hægt frekar en að þetta sé eitthvað sem maður nær alveg örugglega. Ef maður er viss um að ná markmiðinu þá er það varla markmið heldur í raun bara verkefni,  eitthvað sem maður setur frekar á aðgerðalistann sinn. SMART markmið er einnig með tímamörk sem maður setur sér, hvort sem það er vika, mánuðir eða ár. Þá getur maður einfaldlega séð hvort það náðist eða ekki. SMART markmið eru best ef þau eru árangursmiðuð en ekki aðgerðamiðuð þ.e. horft er á útkomuna og niðurstöðuna en ekki framkvæmdina.”

„Fyrir þessa markmiðasetningu þarf maður að þekkja sjálfan sig og vita hvort svona markmiðasetning eigi við sig, hvort það geri manni gott að mæla það sem maður er að gera eða hvort það muni draga mann niður. Hver og einn verður að hugsa innávið og vita áður en lagt er af stað hvaða aðferð hentar. Líklega er ekki gott að vera stöðugt að setja sér markmið og mæla framfarir, of mikið af því getur auðvitað orðið streituvaldandi. Hinn gullni meðalvegur á því örugglega við í þessu eins og svo mörgu öðru og það gæti veri markmið fyrir einhverja um þessi áramót að slaka og njóta betur í núinu þó með það að leiðarljósi að vita hvert viðkomandi vill stefna í lífinu. Þá erum við farin að tala um framtíðarsýn. Hún hjálpar okkur að lifa því lífi sem við viljum lifa. Þá er ég einmitt að vísa aftur í hve mikilvægt það er að njóta vegferðarinnar í stað þessa að ætla að fara bara á hnefanum að settu markmiði og njóta þegar því hefur verið náð. Lífið er núna og við eigum að njóta hverrar stundar bæði í meðbyr og mótbyr. Ef við gerum það vel þá náum við þeim markmiðum sem við virkilega viljum ná í lífiinu.”

Við þökkum Ragnheiði fyrir spjallið alla leið frá Austurríki úr skíðabrekkunum.

Mottó Ragnheiðar er: „Við stjórnum viðhorfi okkar sjálf og getum því alltaf skapað okkar vinningsaðstæður.“

 

Arnbjörg Baldvinsdóttir
Arnbjörg Baldvinsdóttir er 28 ára. Hún býr í Kópavogi ásamt kærasta sínum og dóttur. Hún er menntaður margmiðlunarhönnuður frá Óðinsvé í Danmörku með áherslu á markaðsfræði. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún sem Viðskiptastjóri hjá 66°Norður.

Author: Arnbjörg Baldvinsdóttir

Arnbjörg Baldvinsdóttir er 28 ára. Hún býr í Kópavogi ásamt kærasta sínum og dóttur. Hún er menntaður margmiðlunarhönnuður frá Óðinsvé í Danmörku með áherslu á markaðsfræði. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún sem Viðskiptastjóri hjá 66°Norður.