Við fengum tækifæri til að kynna okkur fyrirtækið Fjölnota sem stofnað var árið 2016. Okkur langaði að vita meira um fyrirtækið og hugmyndafræðina á bakvið það. 

“Plast hverfur ekki, heldur brotnar aðeins niður í náttúrunni í smærri einingar. Þetta örplast endar gjarnan í hafinu þar sem sjávardýr ruglast jafnvel á því og fæðu. Þar með kemst plast inn í fæðuhringinn.” 

Æskuvinkonurnar Kristín og Lína Rut standa á bakvið fyrirtækið Fjölnota en þær hanna, sauma og selja alls kyns lausnir sem geta komið í staðinn fyrir plast.

“Hugmyndin að Fjölnota vaknaði þegar okkur ofbauð einfaldlega allt það plast og allt það rusl sem fór út af heimilum okkar í hverri viku. Okkur féllust í upphafi hendur, en svo ákváðum við að það yrði bara að taka eitt stykki í einu – og það er ekki til nein ein lausn sem hentar öllum.”

Afhverju plastleysi?
“Sífellt dynja á okkur fréttir um ógnina sem stafar af plastnotkun, og þeirri hættu sem vistkerfi sjávar stafar af allskonar plasti. Íslendingar eru sífellt að verða meðvitaðri um endurvinnslu og mörg bæjarfélög vinna að því hörðum höndum að auka flokkun sorps meðal sinna íbúa. Slíkt hefur vissulega gefið góða raun, en að endurvinna er ekki nóg, heldur verðum við að reyna eftir fremsta megni að reyna að minnka alla plastnotkun.”

Hvað er til ráða?
Þær stöllur eru ekki á því að við þurfum að losa okkur við allt plast umsvifalaust heldur vilja þær einnig sjá betri notkun á því plasti sem til er. Þær mæla með því að byrja á að sneiða framhjá einnota plastvörum og einblína á vöru sem endast lengur. “Hvert skref skiptir máli; gott er að byrja á því að taka út plastinnkaupapoka. Svo má hætta að nota plastfilmu (og álpappírinn jafnvel í leiðinni). Kaupa frekar vörur í stærri einingum, eða velja þær sem eru í minni umbúðum. Afþakka rör í drykkinn, taka með sér fjölnota kaffibolla, taka ekki meira en maður þarf af tómatsósu á skyndibitastaðnum.”

“Hver poki skiptir máli – og það er löngu sannað að enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað!”

Vöruúrvalið í stöðugri þróun
Á heimasíðunni þeirra má finna samloku- og snarlpoka, grænmetispoka, blautpoka, áhaldapoka og fjölnota rör. Kristín og Lína sauma þessa poka sjálfar fyrir utan grænmetis- og blautpokana sem eru saumaðir fyrir þær erlendis. “Hugmyndin er að auka vöruúrvalið jafnt og þétt, en fókusinn er alltaf að taka fyrir eitthvað sem við notum og hendum. Við tökum glaðar við hugmyndum, vangaveltum og fyrirspurnum á netfangið okkar fjolnota[hjá]fjolnota.is.”


Hér má finna frekari upplýsingar um Fjölnota:
www.fjolnota.is
Facebook/fjolnota
Instagram/fjolnota

 

 

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.