Það var ekki á dagskránni hjá Kristínu Eddu að verða flugmaður en eftir að hafa smitast af bakteríunni á meðan hún bjó í grennd við Reykjavíkurflugvöll var engin leið til baka. Síðar meir átti hún eftir að fljúga með fullar breiðþotur af farþegum á leið í Pílagrímsferð til Sádí-Arabíu, stappfullar fragtvélar af vörum fyrir DHL, farþegaflug hjá Icelandair ásamt því að kenna öðrum í flugnámi.

Það var kaldur laugardagsmorgun þegar við settumst niður með Kristínu Eddu en við vorum spenntar að fá að vita hvað varð til þess að málin hjá henni þróuðust á þann veg sem raun ber vitni.

Kristín Edda er 27 ára gömul, fædd á Akranesi þar sem hún ólst upp með fimm systkinum sínum. Að alast upp í stórum systkinahóp kenndi henni snemma að finna til ábyrgðar en þau systkinin höfðu foreldra sína sem fyrirmyndir þegar kemur að dugnaði og elju.
Eftir að hafa lokið námi í Fjölbrautaskóla Vesturlands tók hún árshlé frá bóklegu námi en flutti til Reykjavíkur því hún var staðráðin í að fara í háskóla, þó hún væri ekki búin að ákveða hvaða nám yrði fyrir valinu.

FLUGNÁM STÓÐ ALDREI TIL
„Þegar ég var yngri og bjó á Akranesi, þá stóð aldrei til að verða flugmaður. Þetta var einhvern veginn ekkert inní myndinni, ég þekkti enga flugmenn og þekkti ekki til geirans.“ Það átti þó aldeilis eftir að breytast eftir að hún fluttist búferlum til Reykjavíkur. „Ég bjó nálægt Reykjavíkurflugvelli þar sem ég gat fylgst með vélunum á hverjum einasta degi en það var eitthvað sem heillaði mig við þetta allt saman.“ Eftir að hafa látið slag standa og farið í kynnisflug hjá Flugskóla Íslands fann hún að þetta var eitthvað sem hún vildi gera meira af og skráði sig í námið. Eftir því sem tíminn leið í náminu heillaðist hún meira af fluginu og öllu því umstangi sem því fylgir.

EKKI AUÐVELT AÐ ÖÐLAST REYNSLU
Kristín Edda hóf nám í einkaflugmanninum við Flugskóla Íslands árið 2011, hún tók bóklega hluta atvinnuflugmannsins í Oxford í Bretlandi en þann verklega hér heima og árið 2014 var hún útskrifuð.  Á þeim tíma var ekki mikið um störf og þau störf sem voru laus kröfðust ákveðins tímafjölda sem getur verið snúið að safna hérlendis. „Hjá hverju flugfélagi er gerð krafa um ákveðin lágmarksfjölda flugtíma, en einn flugtími eru skilgreindur sem klukkustund á flugi. Eftir að hafa lokið atvinnuflugmannsnáminu vantaði ennþá heilmikið uppá að uppfylla þessi skilyrði svo ég þurfti að finna leið til þess að safna tímum. Með það að leiðarljósi lá leið hennar til Arizona en hún segir það algengt að nýútskrifaðir flugmenn á Íslandi noti þessa leið sem aðferð við að safna hraðar tímum. „Það gengur hraðar að safna tímum þegar veðrið býður upp á flug nánast hvern dag og eins getur verið ergilegt hér heima að vera búin að ákveða að fara í flug en ekkert verður úr vegna veðurs.“ Þegar hún snýr aftur til Íslands og ennþá vantaði upp á tíma, ákvað Kristín Edda að taka flugkennararéttindi.

FLAUG BREIÐÞOTUM MEÐ FARÞEGA Í PÍLAGRÍMSFÖR
Þá fóru hjólin að snúast og Kristín Edda fékk vinnu hjá Air Atlanta sem er íslenskt flugfélag með starfsemi í Sádí-Arabíu. Þar flaug hún stærðarinnar vélum (Boing 747) sem eru svokallaðar breiðþotur í lengri flug sem voru á bilinu 8 – 13 klukkustundir. „Hér var ég mest að fljúga með múslima sem voru búsettir í Asíu og voru á leið í svokalla Pílagrímsför til Mekka í Sádí-Arabíu, því samkvæmt þeirra trú er það heilaga landið sem verður að heimsækja einu sinni á lífsleiðinni. “Þessi tími einkenndist af miklu flakki en þar sem flugin voru löng þá fylgdi þeim lengri hvíldir á milli áður en haldið var aftur til Sádí-Arabíu. Ég náði því að ferðast víða, og sá til dæmis stóran part af Indónesíu, Rússlandi og  Hong Kong svo fátt eitt sé nefnt.“ Kristín Edda segir ferðalögin hafi heillað og henni finnst gaman að fá tækifæri til þess að ferðast, upplifa nýja hluti og kynnast ólíkum menningarheimum, en jafnframt rak hún sig víða á fátækt og þá staðreynd að stór hluti heimsins fær ekki sömu tækifæri og aðrir.

FRÁ PÍLAGRÍMSFÖRUM YFIR Í VÖRUFLUTNINGA
Eftir að hafa komið heim frá Sádí-Arabíu og flogið eitt sumar hjá Icelandair var ferðinni heitið til Þýskalands. Þarna voru þrjú ár síðan Kristín Edda hóf leit að sínu fyrsta flugstarfi og markaðurinn var gjörbreyttur. Aukin ferðamannastraumur olli því að íslenskir flugmenn voru í raun orðnir mjög eftirsóttir og tvö stóru flugélögin lækkuðu tímakröfurnar til að gera nýútskrifuðum flugmönnum kleift að komast fyrr inná markaðinn. „Hjá Icelandair byrja flugmenn í sumarstarfi sem getur síðan leitt af sér fastráðningu en eftir starf hjá Icelandair síðastliðið sumar fékk ég vetrarstarf í Þýskalandi við fragtflug hjá stærsta vöruflutningsfyrirtæki í Evrópu DHL. Starfið var fremur ólíkt því sem hún átti að venjast og þrátt fyrir að vera að fljúga sömu stærð af vél og hjá Icelandair um sumarið þá var vélin allt í einu orðin full af vörum, engir farþegar og engir flugþjónar og flugin venjulega stutt og að næturlagi. „Þarna var ég komin í ólíkt starf en það er vissulega gott að fá fjölbreytta reynslu í safnið.“

FLEIRI KONUR LÆRA FLUGMANNINN
Aðspurð hvort hún hafi orðið vör við fordóma vegna kyns í starfinu segir hún svo ekki vera. „Það er stundum eins og það sé frekar hjá manni sjálfum, að finnast maður þurfa að sanna sig meira því ég er kona.“ Það væri þó helst á meðan hún var við störf í Sádí-Arabíu þar sem andstæðurnar voru miklar, á meðan konurnar þar voru ekki með bílpróf var hún að fljúga breiðþotum. Það hafi oft á tíðum mætt undrun íbúa þar í landi. Hún segir að Ísland sé mjög framarlega þegar kemur að starfandi kvenflugmönnum en nú séu stelpur nánast til helminga við stráka í náminu.

MIKILVÆGT AÐ MUNA AÐ NJÓTA
Í dag starfar Kristín Edda hjá DHL en næsta vor hefur hún störf að nýju hjá Icelandair.  Hún segir okkur að flugkennslan hafi heillað hana og hún gæti alveg séð það fyrir sér að gera meira úr því. Við förum aðeins í lokin yfir það hvort hún lumi ekki á ráðum til annarra stelpna með sams konar drauma. „Það var í mínu tilviki mikið flakk og svo auðvitað mikil vinna sem fylgdi því að komast á þann stað sem ég er á í dag. Mér finnst mikilvægast að fylgja sinni sannfæringu, að láta ekki aðra draga úr sér og hafa óbilandi trú á sjálfum sér. Það geta komið tímabil þar sem það reynist erfitt og maður vill gefast upp en þá verður maður að minna sig á hvers vegna maður er að þessu og segja sér að maður geti þetta. Mér finnst ég einstaklega heppin að vera í vinnu sem er ekki bara vinna heldur líka áhugamál og ég hlakka til að mæta í vinnuna alla daga.“ Hún segir það einnig mikilvægt að gleyma ekki að njóta, vera ekki alltaf að hugsa um að komast yfir í næsta þrep heldur að staldra við og líta yfir farin veg og vera stolt af því sem hefur áunnist.

Það er með þessum orðum sem við kveðjum þessa efnilegu konu sem verður án efa spennandi að fylgjast með í framtíðinni.

Instagram/kristinegils

 

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.