Einfaldur og bragðgóður réttur sem smakkast frábærlega með kaldri sósu, kartöflum og góðu salati. Uppskriftin er úr Avocado bókinn en þar er að finna fjölbreyttar uppskriftir sem innihalda allar avocado ásamt upplýsingum um ávöxtinn. Avocado er ávöxtur sem nýtist í margskonar matargerð, allt frá spaghetti til súkkulaðiköku. Mörgum finnst samt erfitt að átta sig á því hvenær ávöxturinn er fullþroskaður en það eru til nokkur góð ráð við því. Gott er að velja dökkgrænt avocado en ekki svart því þá er það líklega ofþroskað. Ekki er ráðlagt að kreista það fast þegar það er valið því þá myndast dökkir blettir í holdinu en ef það er þroskað gefur það lítillega eftir. Mjög gott ráð er að skoða undir stilkinn. Ef liturinn er grænn þá er það þroskað og tilbúið til neyslu. Ef liturinn er ljósgrænn og erfitt er að ná stilknum af þá er það ekki nógu þroskað en ef liturinn er orðinn brúnn er það orðið ofþroskað.

Uppskrift fyrir tvo

2 kjúklingabringur
1 avocado
1 msk safi úr sítrónu
1 egg
1 dl brauðrasp
salt og pipar
cayenne pipar

Blandið saman avocado, sítrónusafa, salti og pipar. Gott er að nota töfrasprota, matvinnsluvél eða stappa saman með gaffli.

Snyrtið kjúklinginn, skerið gat í miðja bringuna og fyllið með avocadostöppunni. Hrærið egg í skál og hellið brauðraspinum á disk.

Penslið kjúklinginn með egginu og veltið honum upp úr brauðraspinum. Kryddið vel með uppáhalds kryddinu ykkar, ég nota salt, pipar og smá cayenne pipar. Bakið í 30 – 40 mínútur við 190°C.

Hildur Rut Ingimarsdóttir
Hildur Rut Ingimarsdóttir er 31 ára og búsett í Reykjavík með unnusta sínum, syni og dóttur. Hún hefur brennandi áhuga á matargerð og gaf út matreiðslubókina Avocado fyrir jólin 2016. Ásamt því að skrifa fyrir framinn.is vinnur hún hjá Pennanum Eymundsson á fyrirtækjasviði.

Author: Hildur Rut Ingimarsdóttir

Hildur Rut Ingimarsdóttir er 31 ára og búsett í Reykjavík með unnusta sínum, syni og dóttur. Hún hefur brennandi áhuga á matargerð og gaf út matreiðslubókina Avocado fyrir jólin 2016. Ásamt því að skrifa fyrir framinn.is vinnur hún hjá Pennanum Eymundsson á fyrirtækjasviði.