Félagið KÍÓ (Konur í orkumálum) hefur starfað jafnt og þétt síðan í mars 2016. Harpa Pétursdóttir er formaður stjórnar félagsins en hún svaraði fyrir okkur nokkrum spurningum um félagið og starfssemi þess.

Fyrir hvað stendur félagið?
Konur í orkumálum hafa það að markmiði að efla þátt kvenna í orkumálum og styrkja tengsl þeirra á milli, auk þess að stuðla að menntun og fræðslu kvenna hvað varðar orkumál. Hugmyndin er að ná þessu fram með því að halda úti starfsemi, halda fundi og hvers konar viðburði fyrir félagsmenn.

Hvernig kveiknaði hugmyndin?
Hugmyndin kviknaði í háloftunum einhversstaðar á milli Akureyrar og Reykjavíkur á heimleið af stórri ráðstefnu í geiranum. Ég hafði þegar starfað í geiranum í nokkur ár en aldrei séð jafn svart á hvítu hve ástandið var slæmt. Þarna voru staddir nokkur hundruð starfsmenn í geiranum og konur í gríðarlega miklum minnihluta. Ég þekkti þá til FKA og Kvenna í sjávarútvegi og fékk þá hugmynd að gera hið sama fyrir geirann okkar. Það var þó ekki fyrr en einu og hálfu ári síðar að ég lét verða af því að framkvæmda hugmyndina en það sannaðist fljótt að þörf var á slíku félagi því viðtökurnar voru með besta móti.

Hverjir mega vera með?
Öllum sem starfa í orkugeiranum eða hafa brennandi áhuga á orkumálum er opin aðgangur. Félagið okkar stendur líka opið karlmönnum enda teljum við að markmiðinu verði aðeins náð ef við vinnum saman að því.

Hvernig er hægt að skrá sig?
Best er að senda tölvupóst með nafni, kennitölu, tölvupóstfangi og fyrirtæki á konuriorkumalum@gmail.com

Hvað felst í þátttökunni?
Félagsmenn hafa aðgang að viðburðum og fá upplýsingar um hvaðeina sem er á döfinni hjá okkur, fréttir og tilkynningar. Einnig höldum við út lokaðri síðu félagsmanna á Facebook. Einstaka viðburðir eru þó eingöngu ætlaðir konum í félaginu en þá er tilkynnt sérstaklega um það.

Dæmi um viðburði fyrir félagsmenn?
Ráðstefnur um orkumál, heimsóknir í fyrirtæki, sérstakir tengslamyndunarviðburðir og er aðalfundur og árshátið, sem dæmi.

Hvert er markmið félagsins?
Markmið félagsins er að efla þátt kvenna í orkumálum og styrkja tengsl þeirra á milli, auk þess að stuðla að menntun og fræðslu kvenna hvað varðar orkumál. Markmiðið er þannig á endanum að gera félagið óþarft.

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.