Bókin Kviknar kom út síðasta föstudag og fjallar á hreinskilin hátt um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Bókin er tólf ára samvinna þeirra Andreu Eyland Sóleyjar- og Björgvinsdóttur rithöfunds, Hafdísar Rúnarsdóttur ljósmóður og Aldísar Pálsdóttur ljósmyndara. Eftir að hafa skoðað þessa fallegu bók höfðum við samband við þær stöllur og fengum að heyra meira um þetta skemmtilega verkefni.

Aldís Pálsdóttir – Andrea Eyland – Hafdís Rúnarsdóttir

Undirrituð settist niður með þeim Andreu og Hafdísi einn kaldan morgun á Kaffi Laugarlæk í Reykjavík þar sem við fórum yfir ferlið og vinnuna við bókina. Við höfðum heyrt góða hluti af bókinni en þar er að finna bæði myndir og sögur frá foreldrum um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Hugmyndin kviknaði hjá Andreu fyrir um tólf árum síðan þegar hún var ólétt af sínu fyrsta barni. “Ég upplifði það með fyrstu meðgönguna mína að ég varð frekar heltekin og var með endalausar spurningar. Ég leitaði mér upplýsinga alls staðar en það var lítið að finna á netinu og allar bækur eða fræðirit voru á ensku og hentuðu ekki endilega íslensku samfélagi. Þetta var fyrir um tólf árum síðan og þá byrjaði ég að skrifa niður og safna saman spurningum sem ég sjálf var að velta fyrir mér. Eins skrifaði ég niður þær spurningar sem ég sá að aðrar konur voru að velta fyrir sér á netinu en þetta var tími Barnalands.” Andrea dó hins vegar ekki ráðalaus og ákveður að hringja í Hafdísi sem var heimaljósmóðir hennar á þessum tíma og athuga hvort hún geti ekki bara svarað þessum spurningum.
“Þegar Andrea hefur samband förum við svona aðeins að ræða þetta en það eru spurningar þarna líka sem er í raun ekki hægt að svara já eða nei. Konur eru misjafnar og til þess að svara mikið af spurningum um meðgöngu og fæðingu þarf að taka inn í reikninginn heilsu og líðan konunnar. Þú getur lesið að fæðingin eigi að vera svona eða hinsegin en svo bara er hún alls ekki svoleiðis.” Segir Hafdís.

ENDURSPEGLA HVERSU MISMUNANDI VIÐ ERUM
Það er það sem er einmitt svo flott við bókina og sögurnar í henni, þær endurspegla hversu mismunandi ferlið getur verið fyrir hverja og eina konu en í bókinni er að finna smásögur frá mismunandi fólki um þeirra upplifun á ferlinu, hvort sem það sé frá getnaði, meðgöngu, fæðingu eða sængurlegu.
“Við fengum mun fleiri sögur sendar en við gerðum ráð fyrir og í raun birtist aðeins brot af þeim í bókinni en við reyndum að velja sögurnar með það í huga að sýna fjölbreytileikann í þessu. Hversu mismunandi upplifunin getur verið og einnig að fara inn á upplifun pabbanns en hans upplifun á það til að gleymast þar sem konan er auðvitað algjör miðpunktur í þessu ferli, sem er líka allt í lagi.” Segir Andrea, en maðurinn hennar talaði einmitt um það að hafa farið með í sónar og mæðraskoðun en var aldrei spurður hvernig honum leið fyrr en núna en Andrea á von á sínu fjórða barni á næsta ári.
Það eru líka heilmargar spurningar sem konur og karlar einfaldlega þora ekki að spyrja að þar sem þeim finnst þær erfiðar eða vandræðalegar. Þessum spurningum vildu þær líka að koma til skila. “Við vildum hafa þannig brag á þessu að sögurnar og svörin væru létt og á jákvæðum nótum, líka þegar talað væri um það vandræðalega og erfiða. Eins vildum við sýna verðandi foreldrum fram á mikilvægi þess að treysta á sjálfan sig í þessu ferli því þú þekkir þig best og þú mátt gera nokkurn veginn allt sem þú vilt ef þú treystir þér til.” Segir Hafdís.

MYNDIR AF RAUNVERULEGUM FÆÐINGUM
Í bókinni er að finna afskaplega fallegar myndir sem ljósmyndarinn Aldís Pálsdóttir hefur tekið og unnið en hún kemur inn í verkefnið með þeim Andreu og Hafdísi mjög fljótlega. “Þegar ég flutti með Sóleyju og föður hennar til Danmerkur stuttu seinna þá bjó Aldís þar en við þekktumst nú alveg fyrir þann tíma. Ég bar þessa hugmynd undir hana en ég var viss um að ég vildi hafa fallegar og alvöru myndir í bókinni og leist henni vel á og þá fór þetta svona að rúlla.” Segir Andrea, en hún hélt ótrauð áfram að safna efni og sögum og skrifa niður sínar eigin vangaveltur. “Þetta var orðið mörg hundruð blaðsíðna word skjal sem ég var að vinna með sem síðan þurfti að byrja að fara yfir en við Hafdís settumst reglulega saman yfir kaffi til þess að fara yfir spurningarnar og sögurnar”. Segir Andrea og Hafdís bætir við “Hún Andrea er rithöfundurinn og algjörlega penninn á bakvið þetta, hún nær að koma fræðilega efninu skemmtilega niður á blað.”
Aldís var svo viðstödd og tók myndir í raunverulegum fæðingum fyrir bókina en þær segja það hafa verið heilmikla vinnu að fá fólk til þess að leyfa ljósmyndara og eins fyrir Aldísi sem var aldeilis oft á bakvakt ef fæðing skildi nú fara af stað. “Aldís stóð sig eins og hetja í þessu ferli, hún var oft á bakvakt að bíða eftir fæðingu í heilu dagana en missir svo af fæðingunni þar sem það er ómögulegt að stjórna að þessu ferli. Eitt skiptið var barnið til dæmis svo fljótt að fæðast að hún missir af því og í annað skipti var bráðakeisari.”

SÆNGURLEGAN MIKILVÆGUR TÍMI
Hafdís segir sængurleguna oft vera sagða öskubuskuna í barneignarferlinu og að hún sé ánægð með að hún fái gott pláss í bókinni. “Það eru allir svo spenntir á meðgöngunni, þá er svo mikið að gerast og undirbúningurinn fyrir fæðinguna mikill enda má segja að hún sé stóra stundin sem beðið er eftir, en það er í raun ekki fyrr en eftir hana sem fjörið byrjar.” Í bókinni er lagt áherslu á sængurleguna og hversu mikilvæg hún er. Þá er svo margt nýtt að gerast sem getur tekið á líkt og brjóstagjöfin og þetta andlega eins og sængurkvennagrátur og þunglyndi. “Mér finnst vera talað of lítið um þennan kafla, ég legg líka mikla áherslu á fæðingarupplifun foreldra, að foreldrar viti af hverju þeirra fæðing var eins og hún var og skilji allt sem gerðist á þessum tíma svo þau fari örugg inn í sængurleguna.” Segir Hafdís.

SPENNANDI HLUTIR FRAMUNDAN
Það eru spennandi hlutir á döfinni hjá þeim stöllum en það á að fara að vinna sjónvarpsþætti út frá bókinni sem verður klárlega eitthvað sem við þurfum að fylgjast með. Þegar undirrituð forvitnast um aðra bók lítur Andrea á Hafdísi og hlær. “Þetta hefur verið svo langt ferli að Hafdís getur örugglega ekki einu sinni spáð í því eins og er, en ég er enn að sanka að mér efni meðal annars til þess að vinna að sjónvarpsþáttunum.”
Tólf ára vinna loksins orðin að veruleika, bókin er komin út og spennan hjá þeim leynir sér ekki. “Þetta hefur verið afskaplega langt ferli og ég verð að viðurkenna að ég var oft ekki viss hvort þetta myndi hafast en hún Andrea á hrós skilið fyrir drifkraftinn í sér.” Segir Hafdís.
“Þetta er óraunverulegt. Þegar ég fékk fyrsta eintakið í hendurnar hágrét ég. Þetta er bara eitt af börnunum mínum sem ég er nú að sjá fara að heiman og blómstra.” Segir Andrea brosandi.

Við óskum þeim innilega til hamingju með þetta flotta verkefni sem þær munu fagna í kvöld á Kaffi Laugalæk með útgáfuteiti sem er opið öllum. Við mælum með því að kíkja á þær, næla ykkur í eintak af þessari fallegu bók og skála með þeim milli kl. 17:00 og 18:30.

www.kviknar.is
Facebook/kviknar
Instagram/kviknar

Díana Bergsdóttir
Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.

Author: Díana Bergsdóttir

Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.

One Reply to “Kviknar”

Comments are closed.