Undanfarin ár hafa hin ýmsu jóladagatöl bæst við flóru hinna hefðbundu
sælgætisdagatala sem allir þekkja. Við hjá Framanum tökum þessum nýjungum fagnandi en hvetjum ykkur jafnframt til að taka jóladagatölin skrefinu lengra og föndra þau sjálf. Við tókum saman nokkrar hugmyndir að skemmtilegum heimatilbúnum jóladagatölum.

Fyrir pakkasjúka jólabarnið
Þetta dagatal er auðvelt að aðlaga að hverjum sem er. Safnaðu 24 alls konar litlum hlutum yfir árið (eða bara síðustu vikuna í nóvember). Það er náttúrulega alltaf gaman að hafa síðustu gjöfina örlítið stærri, þið vitið hvernig þetta er. Svo pakkarðu hverri gjöf inn og merkir þær frá 1 upp í 24. Sá sem fær svo dagatalið opnar einn lítinn pakka á hverjum degi fram að jólum.

Fyrir fjölskylduna
Samverustundir fjölskyldunnar eiga það til að falla í skugga erilsins sem oft fylgir jólaundirbúningnum. Þá er gott að setjast niður í nóvember og skipuleggja jóladagatal stútfullt af samverustundum. Svona dagatöl eru líka fáanleg hér og þar en það er alltaf skemmtilegast að skipuleggja samverustundirnar saman, útfrá því hvað fjölskyldan ykkar hefur áhuga á að gera.

Fyrir bjórunnandann
Þetta dagatal gæti ekki verið einfaldara í útfærslu:

  1. Kaupa 24 mismunandi bjóra.
  2. Annað hvort pakka þeim inn í jólapappír eða bara skella jólaborða á þá.
  3. Merkja hvern bjór frá 1 -24.
  4. Það væri ekkert verra að finna eitthvað sniðugt til að geyma
    þá í eins til dæmis jólappapírsklæddan kassa.

Fyrir ástina
Það er tilvalið fyrir ástfangna að búa til jóladagatal saman. Þá er bæði hægt að skipuleggja saman eitthvað sem þið gerið á hverjum degi eða skipta dögunum á milli ykkar, þannig væri eitthvað óvænt fyrir báða aðila annan hvern dag. Þetta þarf alls ekki að vera flókið! Deila súkkulaði, horfast í augu, slökkva á skjám, fara í göngutúr og fara saman upp í rúm eru dæmi um eitthvað sem kemur ykkur af stað.

Að búa til jóladagatal, hvort sem það er til að gleðja einhvern sem ykkur þykir
vænt um eða til að auka samverustundir með fjölskyldu eða ástvini getur verið yndislegur hluti af jólaundirbúningnum… og dásamlega fín samvera ef út í það er farið.

Hafdís Bergsdóttir
Hafdís er búsett á Akranesi ásamt eiginmanni og þremur sonum. Hún er með B.ed. próf í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands og sveinspróf í kjólaklæðskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Auk þess að skrifa fyrir Framann starfar hún sem umsjónarkennari við Brekkubæjarskóla.

Author: Hafdís Bergsdóttir

Hafdís er búsett á Akranesi ásamt eiginmanni og þremur sonum. Hún er með B.ed. próf í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands og sveinspróf í kjólaklæðskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Auk þess að skrifa fyrir Framann starfar hún sem umsjónarkennari við Brekkubæjarskóla.