Nánast daglega verðum við vör við allskonar upplýsingar um hollustu og næringargildi matvæla með bæði nýjum og gömlum kenningum. Á meðan einn hollustufrömuðurinn mælir eindregið með ákveðinni fæðutegund er annar sem varar við henni. Það er reynt að sannfæra okkur um að með hinum og þessum matarkúrum og reglum muni allt breytast til hins betra svo það er ekki furða að þetta valdi ruglingi. Á meðan skilaboðin eru misvísandi getur þetta verið flókið, en það þarf ekki endilega að vera flókið að borða hollan mat.

Ráðleggingar um mataræði
Íslenskar ráðleggingar um mataræði koma frá Embætti Landlæknis. Þær byggja á vísindalegum rannsóknum á sviði næringar sem sérfræðingar frá Norðurlöndunum fara reglulega yfir. Þær leggja meðal annars áherslu á að

  • Taka lýsi eða annan D-vítamíngjafa daglega.
  • Neyta fimm skammta af grænmeti og ávöxtum á dag.
  • Auka trefjar í fæði með því að velja heilkornavörur.
  • Neyta fisks a.m.k tvisvar til þrisvar sinnum í viku.
  • Velja fiturminni og lítið sykraðar mjólkurvörur.
  • Velja mýkri og hollari fitu. Dæmi um góðar uppsprettur hollrar fitu eru jurtaolíur, feitur fiskur, lýsi, avókadó, hnetur og fræ.
  • Takmarka unnar kjötvörur og rautt kjöt en velja oftar magurt kjöt, fisk, egg og baunir.
  • Takmarka matvörur sem innihalda mikið mikið magn af viðbættum sykri. Þetta eru fæðutegundir á borð við gos – og svaladrykki, sælgæti, ís, kökur og kex.
  • Takmarka salt í matargerð og matvæli sem innihalda mikið magn af salti, svo sem unnar kjötvörur og skyndibitamatur.

Ávinningur sem hlýst af því að fylgja ráðleggingum er að viðhalda heilsusamlegu holdafari og fyrirbyggja lífstílssjúkdóma. Það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að þær eru ekki einstaklingsmiðaðar né settar fram til að meðhöndla sjúkdóma eða einstaka tilvik, heldur eru þær forvörn, með það að markmiði að efla heilsu.

Í dag er mikil áhersla lögð á mataræðið í heild sinni, þ.e samsetningu fæðunnar og gæði matarins frekar en magn kolvetna, fitu og próteina. Hollusta matvæla er því ekki aðeins fólgin í magni einstakra næringarefna heldur skiptir máli úr hvaða mat við fáum næringu.

Það er vert að hafa í huga að engin ein fæðutegund er svo holl að hún veiti öll þau næringarefni sem líkaminn þarf á að halda og engin ein fæðutegund er það skaðleg að henni ætti alfarið að sleppa sé hennar neytt í hófi. Til að stuðla að góðri heilsu og jafnvægi milli næringarefna er mikilvægt að huga að næringarríku fæðuvali og borða fjölbreyttan mat úr öllum fæðuflokkum. Þar að auki er mikilvægt að hafa reglu á máltíðum og huga vel að skammtastærðum. Það er hægt að bæta heilsuna með hollu mataræði án þess að sniðganga ákveðnar fæðutegundir eða setja sér strangar reglur um boð og bönn. Til dæmis með því að halda stærstum hluta mataræðisins í samræmi við ráðleggingar.

Ég hvet ykkur til að skoða bæklinginn frá Embætti Landlæknis sem hægt er að nálgast hér. Þar er að finna ýmiss hollráð um mataræði og góðar tillögur um hvernig hægt er að fylgja ráðleggingum eftir á auðveldan hátt.

Aníta Sif Elídóttir
Aníta Sif Elídóttir er 26 ára og búsett í Reykjavík. Hún útskrifaðist með BS.c gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands 2013 og M.Sc gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands 2015. Ásamt því að skrifa fyrir framinn.is starfar hún sem næringarfræðingur á Landspítala, Heilsuborg og á Rannsóknarstofu RHLÖ.

Author: Aníta Sif Elídóttir

Aníta Sif Elídóttir er 26 ára og búsett í Reykjavík. Hún útskrifaðist með BS.c gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands 2013 og M.Sc gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands 2015. Ásamt því að skrifa fyrir framinn.is starfar hún sem næringarfræðingur á Landspítala, Heilsuborg og á Rannsóknarstofu RHLÖ.