Í þessu hraða samfélagi sem við lifum í er gott að hafa öll verkefni og minnislista á einum stað. Eftirfarandi smáforrit eiga það sameiginlegt að halda utan um það sem verið er að gera hverju sinni, hvort sem er í vinnu, skóla eða bara á heimilinu. Einnig er hægt að tengja þau við tölvupóstin, til að fá áminningar þegar þörf er á. Það er vissulega ein leið að hafa miða á ísskápnum með því sem vantar að kaupa í matarbúð, en hver hefur svo ekki lent í því að vera mættur í búðina og miðinn góði ekki með í för?

  1. Wunderlist er gríðarlega einfalt “to-do” app sem gerir þér kleift að skrá niður allt sem þú þarft að gera, en það getur verið listinn fyrir matarbúðina eða í raun hvaða verkefni sem er. Auðvelt er að deila listanum með fleirum og merkja hverjum og einum sitt verkefni.
  2. Trello (persónulegt uppáhald) er svipað app sem var í raun upphaflega ætlað sem verkefnastjórnunartæki. Hægt er að vera með eitt stjórnborð sem inniheldur fleiri en eitt plan í gangi. Þá er til dæmis hægt að hafa einn lista sem heldur utan um allt sem er að gerast í vinnunni og svo annað fyrir heimilislífið. Hver og einn starfsmaður eða fjölskyldumeðlimur hefur sín verkefni merkt með sínum lit og svo er hægt að setja inn daga sem verkin þurfa að vera búin að klárast fyrir. Fyrir utan hvað er þægilegt að vera með matarbúðarlistann í stöðugri uppfærslu og það í símanum.
  3. AnyDo, rétt eins og nafnið gefur til kynna fylgir þér hvort sem þú ert í símanum, spjaldtölvunni eða borðtölvunni. Hér er markmiðið að skipta verkefnum niður eftir því hvenær á að vinna þau. Flokkaðu verkefnin eftir því hvort eigi að sinna þeim í dag, á morgun, í vikunni eða bara einhvern tímann seinna.
  4. Be Focused, hentar vel fyrir þá sem finnst gott að skipta tímanum upp með fyrirfram ákveðnum pásum inná milli. Þetta er upplagt þegar kemur að því að skipuleggja lærdóm, sér í lagi í prófatörn. Það er nefnilega ekki hægt að keyra sig áfram á fullu gasi endalust og hámarksafköst krefjast þess að teknar séu reglulegar pásur. Settu þér markmið, ákveddu pásurnar, stilltu tímann og áfram gakk!
  5. Evernote auðveldar þér að halda utan um öll gögn sem tilheyra þínu daglega lífi. Hvort sem um er að ræða ljósmyndir, teikningar, minnisblöð eða hugmyndir þá er hægt að hlaða því öllu saman inná smáforritið og auðvelda þannig utanumhald. Maður getur verið staddur á ólíklegustu stöðum þegar góðar hugmyndir banka uppá og þá getur verið handhægt að grípa í símann og skrifa það niður áður en það gleymist aftur.

 

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

One Reply to “5 ókeypis skipulags-smáforrit í símann þinn”

Comments are closed.