Linnea hætti í flottri vinnu hjá Volvo í Svíþjóð til þess að elta ástina til Íslands. Á nýjum stað Í nýju landi þar sem hún þekkti engan og talaði ekki tungumálið þurfti hún að byrja alveg upp á nýtt. Nú aðeins fimm árum seinna rekur hún eina vinsælustu barnavöruverslun á landinu. Leiðin að draumnum var ekki auðveld, en ástríða, sviti og tár komu henni á þann stað sem hún er á í dag.

Við mættum í Fossvoginn heim til Linneu á sólríkum miðvikudagsmorgni en hún og unnusti hennar eru nýbúin að fjárfesta í fallegu húsi þar. Hún býður okkur inn og eftir að hafa fengið að sjá nýja heimilið setjumst við niður með kaffibolla og förum yfir hlutina.

GAT EKKI ÁN HANS VERIÐ
Linnea Ahle er fædd og uppalin í Svíþjóð en þar kynntist hún Gunnari Þór Gunnarssyni þar sem hann spilaði fótbolta. Árið 2011 skildu hins vegar leiðir þeirra þegar Gunnar skrifaði undir samning hjá KR og hélt aftur heim til Íslands. Linnea var ekki tilbúin á þeim tíma til að yfirgefa starf sitt og vini til þess að fara með honum. Hún var í draumastarfinu, var ekki heilluð af landinu og fannst ekki rétt að skilja allt eftir til þess að elta strák.
Hann fór til Íslands og þau enduðu samband sitt eftir nokkur ár saman. “Ég reyndi hvað ég gat til þess að gleyma honum og halda áfram en þessi tími var agalega erfiður. Ég átti svo erfitt með að vera án hans.” En þeirra saga var sko alls ekki búin, Linnea hafði samband við Gunnar aftur og ákváðu þau að reyna við fjarsamband en á endanum ákvað Linnea að taka sénsinn og flytja til Íslands. “ Ég áttaði mig á því að það væri aðeins einn Gunnar en ég gæti alltaf fundið aðra vinnu.”
Aðeins nokkrum dögum eftir að hún flutti til Íslands komst Linnea að því að hún væri ólétt. “Það var mitt fyrsta merki um að hér ætti ég að vera. Það var barn á leiðinni, Gunnar átti allavega 4 ár eftir af samning og ég þurfti að finna mig á þessum nýja stað.”

VARÐ AÐ BYRJA UPP Á NÝTT
“Mitt fyrsta verk var að finna mér vinnu, sem var ekki auðvelt á þessum tíma hérna á Íslandi og ég ekki aðeins ólétt heldur talaði ég ekki einu sinni tungumálið.” Linnea fékk loks hlutastarf við þrif og móttöku á KEX Hostel í Reykjavík. “Það var snúið að fara úr stjórnunarstöðu hjá Volvo í samskonar starf sem ég hafði verið í þegar ég var sextán ára en maður þarf að byrja einhversstaðar og ég var ánægð að fá vinnu.”
Ófrísk af sínu fyrsta barni fór Linnea í miklar pælingar um barnavörur og þá sérstaklega fatnað en þar byrjar ferðalagið að versluninni Petit. “Ég hafði alltaf hugsað mér að klæða börnin mín í lífrænan fatnað en slíkur fatnaður var á þessum tíma mjög vinsæll í Svíþjóð, en fannst varla hér á landi.”
“Ég las mér mikið til um fatnað og muninn á lífrænum fatnaði og öðrum en það eru rosalega mikið af eiturefnum sem fylgja því að búa til og lita fatnað.” Þetta var upphafið af draumnum um að opna verslun sem seldi lífræn föt fyrir börn. “Húðin er okkar stærsta líffæri og þegar börn eru nýfædd og fram að sex mánaða aldri eru þau hvað viðkvæmust fyrir þessum aukaefnum.”

EINBEITTU ÞÉR AÐ ÞÍNU
Linnea vann hjá KEX Hostel og einnig starfaði hún á tímabili við að hjálpa minni fyrirtækjum við markaðssetningu áður en hún fór að vinna að sínum eigin draumi. Eftir miklar vangaveltur um hvert hún vildi stefna opnaði hún vefverslunina petit.is.
Eftir sirka 8-9 mánuði fór Linnea að sjá hagnað og ljóst var að verslunin færi vel að stað þá fara að opna fleiri vefverslanir með barnavörum. “Mér fannst frábært að sjá fleiri byrja að opna vefverslanir og tók fagnandi á móti samkeppninni en það kom mér á óvart var þegar margar þessara verslana fóru að nota sömu birgja og ég.” Þetta er vandamál sem Linnea þekkti ekki frá Svíþjóð en þar gerir fólk bara sitt og er með allan fókus á því að standa upp úr og vera öðruvísi eins og hún vill ná fram hér á Íslandi með Petit. “Fólk á það til að sjá eitthvað sem gengur upp eða einhvern sem þeim langar að líkjast og reyna að gera það sama, en það mun ekki virka. Þú þarft að finna þinn eigin draum og vinna að honum, þú munt aldrei ná árangri í draumi einhvers annars.

KOMIÐ ÖÐRUVÍSI FRAM VIÐ HANA VEGNA ALDURS
Linnea finnur ekki mikið fyrir því að það sé komið öðruvísi fram við hana fyrir að vera kona í sínu starfi en hún hinsvegar segir að hún hafi fundið fyrir því að vera ung. “Fólk heldur oft að ég vinni fyrir Petit en sé ekki eigandi og oft er komið fram við mig eins og ég viti ekki mikið þar sem ég sé ung og ekki hlustað almennilega á mig, samt er ég nú um þrítugt”. – segir hún og hlær. Það er gott að Linnea sjái spaugilega hlið á þessu en hún hefur þó hætt samstarfi við fyrirtæki vegna framkomu starfsmanna. “Ég var aldrei sátt með framkomu aðilanna hjá fyrirtækinu og ákvað að hætta að vinna með þeim, enda er það mottó hjá mér að það eigi að koma fram við alla eins, sama hvað”.
Sem verslunareigandi fer Linnea einu sinni á ári til Danmerkur á markað með birgjum til þess að skoða nýjar vörur og versla fyrir búðina. “Ég fer á þessa markaði klædd eins og ég er yfirleitt, enda er ég vön að koma til dyra eins og ég er klædd og er að fara að labba mikið og finnst því best að vera í mínum þægilegu NIKE skóm og gallabuxum”. Það gera hins vegar ekki allir og birgjar sem eru á staðnum gefa sér meiri tíma í eldri konurnar sem klæða peningana utan á sér. “Stundum er erfitt fyrir mig að fá aðstoð á þessum mörkuðum til þess að kynna mér betur vörurnar en birgjar eiga það til að velja sér fólk að tala við. Það sem flestir átta sig ekki á er að Petit er á góðum stað og ég hef mjög sveigjanleg fjárráð til þess að versla.” Linnea lætur þetta ekkert á sig fá og segist ekki vilja vera í viðskiptum við fyrirtæki sem gera upp á milli fólks. “Eins og ég sagði áður að þá er ég mjög hörð á þessu og segi við alla mína starfsmenn að passa mjög vel upp á þetta í búðinni, það á að koma eins fram við alla sem labba þar inn”.

EKKERT JAFNVÆGI MILLI VINNU OG FJÖLSKYLDU
Þegar Linnea er spurð út í það að viðhalda jafnvægi milli fjölskyldu og vinnu hlær hún en ásamt því að eiga 4 ára dóttur eignuðust þau Gunnar tvíbura fyrr á árinu. “Það er ekkert jafnvægi hjá okkur, við einfaldlega látum þetta ganga upp. Ég er agalega óskipulögð manneskja að eðlisfari, ég ætla mér alltaf að laga það en á fullt af ónotuðum dagbókum”. Þetta hefur samt gengið vel, meira að segja eftir að tvíeykið kom í heiminn. Við erum heppin með okkar nánustu sem geta líka stigið inn í og hjálpað ef það er allt í hers höndum.

ALLTAF SPENNANDI HLUTIR Á DÖFINNI
Petit var að fá í gegn frábæran samning við Bugaboo um að selja vagnana þeirra á Íslandi en verður hún þá eina búðin sem hefur leyfi til þess að selja þá. “Þetta er stórt og erum við í skýjunum yfir að ná þessum samning. Það voru þó nokkrar búðir sem sóttu um að semja við þá en eftir að fulltrúar komu til Íslands að skoða sig um urðum við fyrir valinu”. Það er nóg um að vera en hefur verið talað við Linneu um að opna alþjóðlega keðju og opna þá fleiri verslanir í t.d. Svíþjóð, Danmörku og Ítalíu. “Þetta er mjög spennandi fyrir okkur og erum við að fara yfir hlutina, hvað við viljum gera og annað enda margt að hugsa um”.
Linnea er mjög skapandi persónuleiki og þegar við förum að spyrjast aðeins fyrir fáum við það upp úr henni að hún vilji fara að hanna sína eigin línu. “Ég er með svo mikið af hugmyndum í gangi, ég er aðeins byrjuð að fikra mig áfram með að hanna mína eigin línu og vonandi fer meira í gang á næsta ári. Ég er oft að finna að mig vanti eitthvað fyrir börnin mín sem ég get ekki fengið, til dæmis er oft agalega erfitt að klæða þau fyrir íslenskt veður og langar mig að vinna með það”.
Linnea hefur enn meira af flottum hugmyndum sem við fáum að heyra aðeins um meðan við klárum kaffið en hún er aldeilis áhugaverð kona að fylgjast með. Linnea vinnur núna hörðum höndum við að opna nýja og glæsilega verslun í Ármúla 23 en verslunin opnar 20. nóvember næstkomandi. Hægt er að finna bæði Linneu og verslunina Petit á samfélagsmiðlum og mælum við með að fylgjast með á þessum spennandi tímum.

Instagram/petit.is
Instagram/lahle
Facebook/PetitIceland
Trendnet.is/Linnea

Díana Bergsdóttir
Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.

Author: Díana Bergsdóttir

Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.