Við þurfum öll að eiga samskipti við alls konar fólk alla daga. Mörg okkar vinna störf þar sem reynir verulega á samskiptahæfni og getur góð samskiptahæfni verið lykilatriði þegar kemur að því að sækja um starf. Ég er nokkuð viss um að sama hvert starfið er þá er góð samskiptahæfni ýmist krafa eða æskileg. Að minnsta kosti muntu alltaf græða á því að verða fær í samskiptum. Hérna eru nokkur atriði sem gætu hjálpað þér þegar kemur að því að sækja um draumastarfið.

Geturðu skrifað málfræðilega réttan og vel skipulagðan texta?
Ef ekki er skaltu reyna að læra það. Það er því miður oft þannig að þeir sem eru slakir í þessu detta fljótt út í umsóknarferlinu. Umsóknin þín er það fyrsta sem vinnuveitandinn skoðar og jafnvel fyrstu kynni hans af þér. Þar sér hann hæfni þína og færni á rituðu máli – vandaðu þig!

Er líkamstjáningin þín í lagi?
Líkamsstaða, svipbrigði, augnaráð, raddblær og handahreyfingar segja oft meira en mörg orð. Atvinnuviðtalið er næsta tækifæri á eftir umsókninni til að sýna samskiptahæfni þína. Hvernig gengur þér að tala við ókunnugt fólk í nýjum aðstæðum? Ef þú veist að þetta er ekki þín sterka hlið skaltu æfa þig, helst fyrir framan spegil – það gæti skipt sköpum.

Ertu kurteis og vingjarnleg?
Sýnir þú öðrum virðingu og hlustar á það sem aðrir eru að segja? Þessir þættir koma þér langt – tileinkaðu þér þá! Ef þú landar ekki starfinu með þessu muntu að minnsta kosti græða betri samskipti almennt.

Þegar þú mætir í starfsviðtalið skaltu vera búin að skoða vel hvaða hæfniskröfur þú þarf að uppfylla og reyna að vekja athygli á styrkleikum þínum gagnvart þeim. Mundu að reynsla þín í lífinu og öðrum störfum er dýrmæt.

Við fæðumst ekki öll með A í samskiptum en við getum svo sannarlega tileinkað okkur góðar samskiptavenjur.

Hafdís Bergsdóttir
Hafdís er búsett á Akranesi ásamt eiginmanni og þremur sonum. Hún er með B.ed. próf í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands og sveinspróf í kjólaklæðskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Auk þess að skrifa fyrir Framann starfar hún sem umsjónarkennari við Brekkubæjarskóla.

Author: Hafdís Bergsdóttir

Hafdís er búsett á Akranesi ásamt eiginmanni og þremur sonum. Hún er með B.ed. próf í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands og sveinspróf í kjólaklæðskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Auk þess að skrifa fyrir Framann starfar hún sem umsjónarkennari við Brekkubæjarskóla.